Fjöllin framundan í túrnum

Fyrsti hvíldardagur túrsins er í dag og eru nú níu dagleiðir að baki. Líkt og við röktum í upphitun okkar fyrir keppnina myndi fyrsta vikan að mestu snúast um baráttuna um grænu treyjuna, flatar dagleiðir og spretti og minna yrði um hasar í heildarkeppninni. Þó er alltaf hægt að treysta á að flötu dagleiðirnar bjóði um óvæntar uppákomur og dramatík og fyrstu dagarnir hér voru þar engin undantekning. Strax á fyrstu dagleið töpuðu stór nöfn einhverjum tíma en þar má nefna Chris Froome sem lenti í óhappi og missti 51 sek. Adam Yates og Richie Porte drógust aftur úr á fyrstu dagleið en Nairo Quintana líklega manna óheppnastur og lenti í því að sprengja tvö dekk á slæmum stað þegar rétt um 3 km voru eftir og tapaði hann meira en mínútu.

Mörg áföll og óvænt atvik

2

Það var ekki bara á fyrstu dagleið sem áföll dundu yfir. Þó nokkrir hafa lent í falli, árekstrum eða sprungnum dekkjum og sérstaklega margir á 9. dagleið þegar keppnin fór yfir hellurnar hjá Roubaix. Í flestum tilfellum er um lítil meiðsl að ræða en nokkrir hafa þó þurft að hætta keppni. Luis Leon Sanchez (Astana) þurfti að hætta keppni eftir slys á annarri dagleið og Tiesj Benoot (Lotto Soudal) hætti keppni eftir að hafa lent illa á öxlinni á fimmtu dagleið. Sigurvegari Grænu treyju síðasta árs, Michael Matthews (Sunweb) nær heldur ekki að klára Túrinn eftir að hafa veikst. Stærsta nafnið til að hætta keppni er þó líklega Richie Porte (BMC) sem fór í jörðina snemma á 9. dagleið og reyndi ekki að fara aftur af stað. Lawson Craddock (EF Education First) tórir hinsvegar ennþá eftir að hafa lent harkalega á fyrstu dagleið.

5

Peter Sagan í Grænu eftir 9. dagleið
Fernando Gaviria (Quick-Step) stimplaði sig rækilega inn í sínum fyrsta Tour De France og sigraði fyrstu dagleið og  fór því inn í dagleið 2 klæddur í gulu treyjuna. Næstur á eftir honum kom Peter Sagan (Bora-HansGrohe) og þar fyrir aftan Marcel Kittel (Katusha) og Alexander Kristoff (UAE Team Emirates). Á dagleið 2 var það hinsvegar Peter Sagan sem sigraði sprettinn og tryggði sér nægilega mörg stig til að klæðast grænu treyjunni.

3

Keppnin um grænu treyjuna hefur verið skemmtileg en Peter Sagan virðist eins og sakir standa klæðast henni nokkuð örugglega og líklegur til að bæta stiga forskotið fremur en að minnka það. Gaviria sem er firnasterkur á flötum endasprett tókst að sigra 4. dagleið en Peter Sagan hefur alltaf verið skammt undan. Þær dagleiðir sem enda í brekkum hafa fremur fallið Peter Sagan í hag og honum tókst að ná sigri á fimmtu dagleið. Dylan Groenewegen (LottoNL-Jumbo) kom sterkur inn á 7. og 8. dagleið og sigraði þær báðar á meðan augun beindust fremur að Sagan og Gaviria sem voru skammt undan.

4

Líkt og fyrr segir er það Peter Sagan sem klæðist Grænu treyjunni nú þegar að fyrsta hvíldardegi er komið. Bilið jafnramt jókst á 8. dagleið þegar Gaviria og André Greipel fengu á sig víti fyrir að hafa farið ógætilega í endasprettinum í keppni um stöðu. Sagan, Groenewegen og Gaviria líta út fyrir að vera í besta forminu í sprettum og eflaust eru niðurstöðurnar vonbrigði fyrir aðra. Mark Cavendish virðist ekki ná fyrri hæðum í þessum túr og Marcel Kittel er langt frá því að sýna sömu yfirburði og hann gerði á síðasta ári þegar hann hjólaði fyrir Quick Step og hafði sterkan hóp að leiða sig inn í sprettina. Næsta flata dagleið verður þann 20. júlí og verður fróðlegt að sjá hvernig formið verður á spretturum þá.

Greg Van Avermaet í Gulu en heildarkeppnin galopin
Líkt og búast mátti við hafði liðstímatakan á þriðju dagleið áhrif á stöðuna í heildarkeppninni. Tvö lið voru sigurstranglegust fyrirfram, Sky og BMC og kom því ekki á óvart að þau lentu efst þann daginn. BMC komu fyrstir í mark, 4 sek á undan Sky og 7 sek á undan Quick Step og með sigrinum endaði þeirra maður, ólympíumeistarinn Greg Van Avermaet í gulu treyjunni. Staða Thomas Geraint hjá Sky var jafnframt góð eftir þriðju dagleið, einungis 3 sek frá fremsta manni á meðan nokkrir í heildarkeppninni voru um 1 mín frá Gulu (Froome, Nibali, Landa, Valverde, Roglic, Zakarin) og Quintana um 2 mín.

6

9. dagleið bauð upp á mikla spennu, en þar var mikill hraði frá byrjun, margir hjólarar lentu í jörðinni og mikið var um árásir. Richie Porte þurfti að yfirgefa keppnina en fjöldi annarra hjólara lenti einnig í götunni t.d. Tejay Van Garderen (BMC), Egan Bernal (Sky) og Chris Froome (Sky) svo dæmu séu nefnd. Romain Bardet (AG2R) átti erfiðan dag, sprengdi dekk, þurfti að skipta um hjól, þurfti að skipta aftur um hjól og sprengdi svo aftur dekk. Mikel Landa lenti í jörðinni þegar stutt var eftir og virtist meiðast en Movistar brugðust fljótt við og létu menn hjálpa honum að brúa bilið á hópinn. Landa var heppinn að tapa ekki meiri tíma en 34 sek. Úrslitin réðust þegar skammt var eftir, en þá gerði Greg Van Avermaet árás og tveir hjólarar náðu að elta, Yves Lampaert úr Quick Step og John Degenkolb frá Trek-Segafredo. Degenkolb tókst svo að sigra dagleiðina eftir endasprett. Van Avermaet var þó áfram í Gulu treyjunni þegar komið var í hvíldardaginn en þó má búast við því að treyjan skipti um eiganda á þriðjudag.

Nafn – Lið – Sek frá efsta manni

 1. Greg Van Avermaet – BMC – /
 2. Thomas Geraint – Team Sky – 00:43
 3. Philippe Gilbert  – Quick Step Floors – 00:44
 4. Bob Jungels – Quick Step Floors – 00:50
 5. Alejandro Valverde – Movistar – 01:31
 6. Rafal Majka – Bora HansGrohe – 01:32
 7. Jakob Fuglsang – Astana Pro Team – 01:33
 8. Chris Froome – Team Sky – 01:42
 9. Adam Yates – Mitchelton Scott  – 01:42
 10. Mikel Landa – Movistar – 01:42

/

 1. Vincenzo Nibali – Bahrain Merida – 1:48
 2. Primoz Roglic – Team LottoNLJumbo – 1:57
 3. Tom Dumoulin – Team Sunweb – 2:03
 4. Romain Bardet – Ag2r La Mondiale – 2:32
 5. Nairo Quintana – Movistar – 2:50

Í Gulu treyjunni -> Greg Van Avermaet
Í Grænu treyjunni -> Peter Sagan
Í Doppóttu treyjunni -> Toms Skujins
Í hvítu treyjunni -> Sören Kragh Andersen

7

Fjöllin framundan
Á miðvikudag og fimmtudag fara fram tvær dagleiðir sem við bentum lesendum á að missa alls ekki af í upphitun okkar en á fimmtudag endar dagleiðin upp hina frægu Alpe d’Huez brekku. Þegar komið verður í fjöllin förum við að sjá betur hvernig heildarkeppnin kemur til með að þróast og ýmsum spurningum verður svarað. Við fáum þá að sjá Nairo Quintana sem lítið hefur látið fyrir sér fara á árinu og hvernig hann ætlar sér að brúa 3 mín bil á efsta mann. Við fáum að sjá hvort Giro sitji í Chris Froome eða mun Thomas Geraint þurfa að leiða Sky til sigurs. Í öllu falli fara margir sáttir inn í viku tvö, sérstaklega þeir sem komust í gegnum viku eitt áfallalaust.

 

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar