Ingvar og María taka sigurinn á Vesturgötunni

Það er nóg um að vera í fjallahjólasportinu þessa dagana. Í gær fór fram Íslandsmót í fjallahjólamaraþoni, en þá er farið Vesturgötuna á Vestfjörðum. Í dag fer svo fram Enduro sumarfagnaður og næstu helgi fer fram Íslandsmótið í fjallahjólreiðum á Ólafsfirði og Íslandsmótið í fjallabruni á Akureyri. Fyrri tvær keppnirnar eru hluti af Hlaupahátíð á Vestfjörðum sem fer fram þessa dagana, en síðari tvær eru hluti af stóru hjólahelginni á Akureyri.

Það voru þau Ingvar Ómarsson úr Breiðabliki og María Ögn Guðmundsdóttir sem stóðu uppi sem sigurvegarar í keppninni í gær.

María var um fjórum mínútum á undan Kareni Axelsdóttur sem kom í öðru sæti. Var tími Maríu 2:54:16, en tími Karenar 2:58:10. Kolbrún Dröfn Ragnarsdóttir var þriðja á 3:15:14. Þetta er fimmta keppni Maríu frá upphafi keppninnar árið 2011 og fjórði sigur hennar. María vann fyrstu þrjú mótin frá 2011 til 2013, en árið 2014 var það Þorgerður Pálssdóttir sem kom fyrst í mark á undan Maríu sem þá var í öðru sæti. Síðustu ár hefur María verið í pásu frá Vesturgötunni, en kom nú til leiks að nýju og tók fyrsta sætið nokkuð örugglega.

Eins og svo oft áður voru það þeir Ingvar og Hafsteinn Ægir Geirsson úr HFR sem bitust um fyrsta sætið í karlaflokki, hvort sem um er að ræða götuhjólakeppnir eða fjallahjólakeppnir. Ingvar var 12 sekúndum á undan Hafsteini í þetta skiptið á 2:15:51 meðan Hafsteinn var á 2:16:03. Gústaf Darrason var í þriðja sæti á 2:27:00.

37117834_10216498952043352_6398230536246001664_n
Hafsteinn Ægir kemur á eftir Ingvari í góðu klifri snemma á leiðinni. Ljósmynd/Sigurjón Ernir Sturluson

Fyrst var keppt í Vesturgötuhjólreiðum árið 2011 á Hlaupahátíðinni, þetta er sem sagt áttunda keppnin. Síðan þá hafa þeir Ingvar og Hafsteinn sjö sinnum tekist á um titilinn, þar af sex sinnum sem þeir hafa verið í fyrsta og öðru sæti. Hefur Ingvar núna landað honum fimm sinnum en Hafsteinn tvisvar.

Í Vesturgötunni byrjar keppnin við íþróttahúsið á Þingeyri, en bærinn er við Dýrafjörð. Þaðan er hjólað inn Kirkjubólsdal, sem liggur í suður frá bænum, og yfir Álftamýrarheiði og niður í Fossadal. Komið er úr Fossadal við Arnarfjörð og stefnan þá tekin út fjörðinn og umhverfis skagann um svokallaðar Svalvogabrekkur. Svo er hjólað aftur á Þingeyri þar sem keppnin endar.

Samkvæmt færslu Ingvars á Instagram í gær tók hann strax smá forskot á fyrsta klifri dagsins sem fer yfir Álftamýrarheiði. Segir Ingvar að Hafsteinn hafi hins vegar næstum því náð honum á leiðinni niður og eftir það hafi byrjað einskonar tímatökuþraut milli þeirra alveg að endamarkinu, en hann hafi náð að halda nokkrum sekúndum á hann alla leið. Niðurstaðan var 12 sekúndna sigur eins og fyrr segir.

Heildarúrslit frá keppninni í ár má finna hér.

Ljósmyndir/Sigurjón Ernir Sturluson

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar