Komið að stóru stundinni: Íslandsmótin framundan

Það er komið að því, í þessari viku verða haldin Íslandsmót í tímatöku og götuhjólreiðum og þessu sinni fara þau fram við Kleifarvatn og á Suðurstrandavegi. Á síðasta ári fór Íslandsmótið í götuhjólreiðum fram á Snæfellsnesi, nánar tiltekið í  Jökulmílunni en þá stóðu Anton Örn Elfarsson og Erla Sigurlaug Sigurðardóttir uppi sem Íslandsmeistarar.

Fjörið byrjar á miðvikudag þegar keppt verður í tímatöku á 19 km leið við Kleifarvatn. Veðurspáin fyrir miðvikudaginn er góð og gangi hún eftir verður þurrt veður, sólríkt og um 4 m/s úr norðvestri. Leiðin hefst við Seltún og svo eru hjólaðir tæpir 10 km í átt að norðurenda vatnsins þar sem snúið er við á keilu og hjólað í sömu átt til baka. Ólíkt mörgum tímatökum er leiðin ekki alfarið flöt, heldur munu keppendur þurfa að tækla stuttar brekkur við Kleifarvatnið sem eru flestum hjólreiðamönnum vel kunnugar.

_MG_5755

Það verður hörð keppni um Íslandsmeistaratitilinn ef marka má núverandi skráningar. Í karlaflokki er núverandi Íslandsmeistari, Hákon Hrafn Sigurðsson, skráður til leiks og einnig Rúnar Örn Ágústsson en einungis munaði 16 sek á milli þeirra í Íslandsmótinu á síðasta ári þar sem Rúnar var í öðru sæti. Rúnar hefur hinsvegar komið sterkur inn á þessu ári en hann vann bæði í vortímatöku Breiðabliks og Cervelo TT. Til að gera keppnina meira spennandi má sjá að bæði Hafsteinn Ægir Geirsson og Ingvar Ómarsson eru þar líka skráðir og líklegir til að blanda sér í baráttuna. Í kvennaflokki er núverandi Íslandsmeistari, Ágústa Edda Björnsdóttir skráð til leiks en hún hefur hafið tímabilið af krafti og farið með sigur af hólmi bæði í Vortímatöku Breiðabliks og Cervelo TT og einnig í Reykjanesmótinu.

_MG_5713

Sunnudaginn 24. júní fer svo fram hjólreiðaveisla þegar Íslandsmótið er ræst frá Grindavík ásamt tveim almenningsflokkum. Almenningsflokkarnir hjóla annars vegar 46km og 78km leiðir. Stysta leiðin fer frá Grindavík, upp Festarfjall og í átt að Krýsuvíkur afleggjara þar sem snúið er við. 78 km leiðin er sú sama nema beygt er inn á Krýsuvíkur afleggjara, þaðan hjólað framhjá Kleifarvatni og snúið við á malbiksenda norðan við vatnið og sama leið hjóluð til baka.

Í sjálfum elite-keppnisflokknum verða hjólaðir 141 km hjá körlum og 113 km hjá konum.  Keppnisflokkarnir hjóla því af stað frá Grindavík og taka stefnu á Þorlákshöfn. Í Þorlákshöfn er snúið við á hringtorgi og hjólað að Krýsuvíkurafleggjara þar sem karlar beygja inn og hjóla meðfram Kleifarvatni þar til snúið er við á malbiksenda og hjólað í átt að Grindavík. Konurnar beygja hinsvegar ekki upp inn á Krýsuvíkurveg.

Sjá nánar leiðalýsingar

Það verður gaman að fylgjast með hvernig keppnin þróast og hvort Festarfjall muni verða stór áhrifavaldur eins og í Reykjanesmótinu þegar Ingvar Ómarsson og Hafsteinn Ægir Geirsson slitu sig frá hópnum og héldu forystu út keppnina (Lesa má nánar um það í frétt Hjólafrétta). Festarfjall er hinsvegar snemma í keppninni og því forsendur fyrir því að keppnin haldist spennandi allt þar til komið verður inn á Krýsuvíkurveg en þá verður tækifæri til að ráðast á brekkurnar við Kleifarvatn.

Nákvæm veðurspá er ekki komin fyrir næsta sunnudag en veðrið gæti haft þónokkuð að segja um framvindu keppninnar. Eins og stendur má búast við ágætis veðri, suðvestan átt þ.e. hliðarmeðvindi framan af. Það sem helst vantar þó núna eru fleiri skráningar í þessar frábæru leiðir, hvort sem það er Elite keppnin eða almenningskeppni vilja Hjólafréttir hvetja sem flesta til að taka þátt í þessum viðburði.

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar