Helgi og Gunnhildur tóku sigur í fyrsta downhill mótinu
Helgi Berg Friðþjófsson og Gunnhildur Ingibjörg Georgsdóttir fóru með sigur af hólmi í fyrsta downhill fjallahjólamóti ársins, en það fór fram í gær fyrir leik Íslands og Argentínu í Vífilstaðahlíð. Var mótið jafnframt fyrsta bikarmót ársins Alls mættu 12 karlar og fimm konur til leiks í bikarflokknum, en einn karl var í almenningsflokki.
Aðstæður voru nokkuð erfiðara, en rignt hafði mikið nóttina fyrir keppni og var útgangur keppenda eftir því.
Helgi, sem keppir fyrir Brettafélag Hafnarfjarðar, var fyrstur niður báðar ferðirnar í karlaflokki. Fyrri ferðina fór hann á 1:10,962 og þá seinni á 1:09,828 og gilti seinni ferðin sem besta ferð dagsins. Þorsteinn Freyr Gunnarsson úr HFR var annar og fór ferðirnar á 1:15,592 og 1:15,565. Steini Sævar Sævarsson úr HFR var þriðji. Fór hann fyrri ferðina á 1:18,796, en bætti sig svo í seinni ferðinni og náði 1:16,696 sem skaut honum upp í fjórða sætið, aðeins 7/1000 úr sekúndu á undan Alexander Tausen Tryggvasyni sem kom næstur, en hann keppir fyrir Brettafélag Hafnarfjarðar.
Í kvennaflokki var Gunnhildur Ingibjörg Georgsdóttir úr Brettafélagi Hafnarfjarðar fyrst eftir báðar ferðirnar. Hún fór fyrri ferðina á 1:29,767, en var þá í öðru sæti á eftir Katarínu Eik Sigurjónsdóttur úr HFR, sem fór fyrri ferðina á 1:27,254. Gunnhildur bætti hins vegar við í seinni ferðinni og fór á 1:24,766, esem var besta ferð keppninnar í kvennaflokki, meðan Katarína mátti sætta sig við 2:03,356 á seinni ferðinni.

Heiðrún Erla Guðbjörnsdóttir úr HFR var í þriðja sæti á 1:55,085, en hún náði að skjótast fram úr Elínu Björg Björnsdóttir úr HFR, sem hafði verið á undan henni eftir fyrri ferðina á 1:59,412.
Steini Sævar, sem jafnframt var mótsstjóri, segir í samtali við Hjólafréttir að keppendur hafi æft sig í brautinni fyrir helgi þar sem hún var nokkuð þurr, en svo þegar þeir hafi mætt til keppni á laugardaginn hafi rennblaut brautin beðið þeirra eftir hellirigningu um nóttina. Kallaði það á að allir keppendur skiptu um dekk og settu grófari drulludekk undir.
„Það er alveg svart og hvítt eftir því hvort brautin er þurr eða blaut,“ segir Steini og bætir við að þar sem Vífilstaðahlíð sé í gegnum skóglendi með moldarundirlagi geti brautin orðið algjört drullusvað eftir rigningu. Segir hann það hafa sést ágætlega á keppendum sem hafi verið drulluskítugir eftir ferðirnar tvær.
Steini segir að keppnin hafi að öðru leyti gengið mjög vel fyrir sig og þátttaka verið nokkuð góð.