Rangárþing ultra: 50 km utan þjóðvega
Í kvöld verður fjallahjólakeppnin Rangárþing ultra haldin í annað skiptið, en hjólað er á milli Hvolsvallar og Hellu. Mótið er samstarfsverkefni sveitarfélaganna Rangárþings ytra og Rangárþings eystra. Er ein vegalengd í boði sem er 50 kílómetrar og verður ekkert hjólað á þjóðvegum.
Eiríkur Vilhelm Sigurðarson markaðs- og kynningarfulltrúi keppninnar, segir að um 100 manns séu skráðir og skráning sé opin fram til 18:15, en keppni hefst klukkan 19 í kvöld. Segist hann gera ráð fyrir nokkuð yfir 100 þátttakendum í það heila og gerir ráð fyrir góðri keppni. „Veðurspáin góð og algjörlega tilbúin í þetta,“ segir Eiríkur, en þegar Hjólafréttir náðu í hann voru mótshaldarar að ljúka undirbúningsfundi.
Í fyrra, þegar fyrsta keppnin fór fram, var hjólað frá Hellu á Hvolsvöll, en nú er því snúið við og farið frá Hvolsvelli á Hellu og mun upphafsstaðurinn skiptast á milli sveitarfélaganna milli ára.
Helsta breyting fyrir keppendur er að sögn Eiríks að í ár er næstum öll hækkunin í byrjun keppninnar. Þannig eigi meirihlutinn af hækkuninni að vera kominn á fyrstu 10 kílómetrunum og eftir það byrji að lækka.
Eiríkur segir að keppnin sé ekki talin tæknilega erfið, en að keppendur fái að hjóla á sandi, möl og eiginlega flest öllu mögulegu undirlagi sem í boði er á Íslandi. Þá verða um 14 kílómetrar á malbiki, en Eiríkur tekur fram að allt sé það utan þjóðvega.
Gera má ráð fyrir fyrstu keppendum í mark um 20:20 og verðlaunaafhendingu klukkan 21.
Fyrir áhorfendur bendir Eiríkur á að þægilegt geti verið að koma sér fyrir við Keldur, auk upphafsstaðar og endamarks. Þannig sé aðgengi að Keldum gott og hægt að leggja bíl þar.
Í lok keppni er öllum keppendum boðið í súpu, grill og sund.