Sóðaskapur

Almennt er hægt að hrósa hjólreiðamönnum og konum fyrir tillitssemi í umferðinni og að vera öðrum til fyrirmyndar. Það breytir því þó ekki að sumt má bæta og sóðaskapur í keppnum er eitt þeirra mála.

Í lengri keppnum þurfa keppendur að næra sig og SIS gel virðast þar vera með vinsælli afurðum til að neyta. Aftur á móti sér maður líka fjölda slíkra tómra bréfa liggja eins og hráviði á keppnisleiðum og er það til háborinnar skammar.

Sjálfur nota ég SIS gelin og veit að það getur verið erfitt að klára úr þeim þegar allt er á fullu og þar með ekki vinsælasta leiðin að geyma þau í gegnum alla keppnina, hvort sem það sé með að setja þau í bakvasann eða inn á sig.

Í 125 km keppninni í Tour of Reykjavík var hræðilegt að hjóla um seinni hluta Þingvallarvegar, Grafning og Nesjavallaleiðina. Á Grafningsvegi var þetta sérstaklega slæmt og þykir mér ekki ólíklegt að SIS bréf hafi verið á götunni á ca 200-300m fresti. Þetta setur ljótan blett á keppnissamfélagið og ýtir undir slæmt umtal utanfrá um keppnir sem þessar.

Tour of Reykjavík er ekkert einsdæmi heldur hefur maður séð þetta í Reykjanesmótunum síðustu ár, RB Classic og Þingvallakeppninni, þó ég hafi aldrei séð þetta jafn slæmt og í lengri dagleið Tour of Reykjavík í ár. Þá mátti sjá smá gagnrýni keppnishaldara í Bláulónsþrautinni, en við tiltekt voru tekin upp 48 bréf af orkugelinu vinsæla. Eitthvað segir mér þó að þau hafi verið mun fleiri.

Við eigum að geta gert betur en þetta.

-Þorsteinn Ásgrímsson

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar