Unga fólkið sterkt í Cube Prolouge
Fyrsta Cube Prolouge tímaþrautarmót sumarsins fór fram á Krýsuvíkurvegi nú í kvöld, en það er Hjólreiðafélagið Bjartur sem hafði umsjón með mótinu. Hjólað er frá námunum efst á Krýsuvíkurvegi og 7,6 km niður veginn og endað rétt fyrir afleggjarann að Hvaleyrarvatnsvegi.
Aðstæður til keppni voru góðar, örlítill mótvindur og ef kvarta mátti yfir einhverju hjá veðurguðunum var það örlítil væta sem kom verst niður á skyggni í gegnum gleraugu keppenda á leið niður.
Keppt var bæði í TT-hjólaflokki og götuhjólaflokki.
Íslandsmeistararnir komu fyrst í mark
Í TT-hjólaflokki var það Hákon Hrafn Sigurðsson, núverandi Íslandsmeistari í tímaþraut og keppandi fyrir Breiðablik, sem fór brautina hraðast, eða á 8:42. Eyjólfur Guðgeirsson úr Tindi var í öðru sæti á 8:59 og Stefán Haukur Erlingsson út Aftureldingu kom þriðji á 9:08.
Í kvennaflokki var Ágústa Edda Björnsdóttir, einnig Íslandsmeistari í tímaþraut og keppandi fyrir Tind, sem kom fyrst í mark. Var hún á tímanum 9:56. Margrét Pálsdóttir úr Breiðablik var önnur á 10:04 og Margrét Valdimarsdóttir, einnig úr Breiðablik, kom þriðja á tímanum 10:22.
Unga fólkið sterkt í götuhjólaflokkinum
Í götuhjólaflokki kom Kristinn Jónsson úr HFR fyrstur í mark á 9:33, en hann er aðeins 18 ára gamall. Óskar Ómarsson í Tindi var annar á 9:36 og Einar Gunnar Karlsson frá HFR var þriðji á 9:48.
Hjá konunum var Inga Birna Benediktsdóttir úr HFR hlutskörpust á tímanum 11:29, en hún er aðeins 16 ára gömul. Hrefna Sigurbjörg Jóhannsdóttir úr Breiðabliki var í öðru sæti á tímanum 11:42. Guðrún Björk Geirsdóttir úr Ægi var þriðja á 11:55.
Bjartsmenn fá hrós fyrir skemmtilega keppni.
Þar sem nokkuð kalt var þegar komið var niður að endamarki verða nokkrar myndir af götuhjólakeppninni að duga.