Giro d’Italia: Fyrsti túr ársins
Í dag hefst Giro og startar keppnin þar með Grand túr tímabili þessa árs. Keppnin í fyrra var rosaleg skemmtun og spenna fram á síðasta keppnisdag þegar Tom Dumoulin frá Sunweb stóð uppi sem sigurvegari. Movistar hafði mætt með sitt sterkasta lið en Nairo Quintana hafði gefið það út að hann myndi reyna við sigur í bæði Giro og Tour De France. Keppnin hafði þó dregið að sér fleiri stór nöfn það árið þar sem Vincenzo Nibali (Bahrain-Merida), Geraint Thomas (Sky), Mikel Landa (Sky), Thibaut Pinot (FDJ) og Ilnur Zakarin (Katusha-Alpecin) þóttu allir líklegir í heildarkeppninni.
Það var hins vegar Tom Dumoulin sem klæddist bleiku treyjunni eftir tímatöku á 10. Dagleið og allt fram á 19. Dagleið. Yfirburðir Tom Dumoulin í tímatöku gerðu það hinsvegar að verkum að sigur hans var varla í hættu þótt hann hafi tapað bleiku treyjunni eftir 19 dagleið. Hann þurfti þó að vinna upp 53 sekúndur í tímatökunni á 21. Dagleið.
Það tókst honum og endaði sem sigurvegari Giro 2017 með 31 sekúndu á Quintana sem lenti í öðru sæti. Movistar hafði í raun spilað keppnina hárrétt, stýrðu ferðinni og voru oft með menn í breiki til stuðnings. Það dugði þó ekki til að brjóta Dumoulin. Öllu minni spenna var í sprett keppninni þar sem Fernando Gaviria (Quick Step) sýndi mikla yfirburði í flestum sprett dagleiðunum.
Þetta árið fara fyrstu þrjár dagleiðirnar fram í Ísrael og hefst keppnin á 10km tímatöku í Jerusalem. 8 maí færist keppnin til Sikileyjar þar sem þrjár dagleiðir fara fram og í kjölfarið færist keppnin upp Ítalíuskagann. Fjörið hefst svo fyrir alvöru á dagleið 14 þegar keppnin færist í Alpana en af síðustu 8 dagleiðum eru 5 í fjöllunum. Af 21. dagleið eru 8 sem enda á klifri og því ljóst að hjólaunnendur eiga von á góðu. Hér eru að minnsta kosti hluti af þeim dagleiðum sem Hjólafréttir ætla ekki að missa af.
6. Dagleið
Síðasta dagleiðin á Sikiley endar á klifri upp eldfjallið Etnu þar sem heildarkeppnin ætti að byrja fyrir alvöru. Etna var líka hluti af keppninni í fyrra þegar Jan Polanc (UAE) sigraði dagleiðina og Ilnur Zakarin (Katusha-Alpecin) var í öðru. Klifrið er 15 km langt og nær mest 15% halla.
14. dagleið
Á 14. Dagleið fer keppnin upp í Alpana nálægt landamærum Austuríkis. Það er þó nokkur klifur á dagleiðnni sem er 186 km, en stærsta klifrið er í lokin upp Monte Zoncolan. Það er ljóst að hér er ekki að ræða neina Vífilsstaðabrekku heldur 10km klifur þar sem hallinn nær mest 22% og þar af 15,4% meðalhalla yfir 4km.
18. dagleið
Það setja ekki allir dagleið 18. Inn á must-watch listann, en það gerum við. 18. Dagleiðin er tiltölulega slétt en endar á 14 km klifri þar sem hallinn fer aldrei yfir 10%. Leiðin byrjar hinsvegar í bænum Abbiategrasso rétt vestur af Milanó, per fljótlega yfir Pó ánna og endar í Piemonte. Það merkir bara eitt, rúllandi hæðir í fallegustu vínhéröðum Ítalíu. Hjólað er í gegnum Asti og Alba og ef einhver hefur verið að leita að tilefni til að opna flösku af Barolo, Barbaresco eða Barbea d‘Alba þá væri þá núna.
19. dagleið
19. dagleið eru 184 km. með 3500 m. klifri. Á leiðinni má einnig finna Cimo Coppi, hæsta tind Giro þessa árs, en á miðri leiðinni fer keppnin upp Colle Delle Finestre, 19 km klifur, 45 beygjur og meðalhalli upp á 9-10% og þá er dagleiðin hálfnuð. Leiðin endar 7,2 km klifri upp Monte Jaffereau með meðalhalla á bilinu 9%.
Til viðbótar við þessar dagleiðir er ljóst að dagleiðir 15 og 16 gætu verið áhugaverðar. Dagleið 15 kemur degi fyrir hvíldardag, og eftir hvíldardagin verður 35 km tímataka sem gæti haft mikil áhrif síðustu daga keppninnar upp á hverjir þurfi að gera árás eða hvort Froome geti verið í því að verja forskot eftir tímatöku eins og hann er vanur.
Hverjum viljum við fylgjast með?
Eftirvæntingin ætti ekki að vera lítið þetta árið fyrir þá staðreynd að nú mætir Chris Froome í fyrsta sinn til leiks í Giro og með honum kemur firnasterkt lið Sky til leiks. Margir bíða því spenntir eftir að sjá núverandi meistara Tom Dumoulin mæta Froome en hvorugur þeirra hefur látið mikið bera á sér í vormótunum.
Það er alveg ljóst að Froome leggur mikið undir að ná sigri í Giro og vera þar með sigurvegari 3 grand túr á sama tíma en hann vann Tour De France og Vuelta í fyrra. Skylestin verður einnig sterk en með Froome verða m.a Vasil Kiriyenka, Wout Poels, Kenny Elissonde og Sergio Henao.
Líklegt er þó að Dumoulin kunni að líða vel á bakvið Sky lestina en ekki alltaf sem Froome mætir sterkari tímatökumanni í baráttu í heildarkeppni. Það má því búast við því að Froome muni þurfi að vera aggressífur.
Sigur annars hvors þeirra er þó langt frá því að vera í höfn og á meðan flestir horfa á einvígi Froome og Dumoulin þá mun það líka hafa áhrif að færri tímatökukílómetrar eru í keppninni í ár en í fyrra sem mun gera þeim erfiðara fyrir. Á sama tíma munu sterkir andstæðingar reyna að nýta fjöllin til að opna keppnina. Þar gæti firnasterkt lið Astana komið sterkt inn en það er mannað sterkum klifrurum með Miguel Angel Lopez fremstan í flokki. Fleiri hjólarar sem gæti verið gaman að fylgjast verða t.d. Thibaut Pinot (FDJ) ásamt heimamönnunum Fabio Aru (UAE) og Domenico Pozzovivo (Bahrain Mehrida).
2 Replies to “Giro d’Italia: Fyrsti túr ársins”