Hvað eru eiginlega þessir Grandtúrar?

Föstudaginn 4. maí byrjar Giro d‘Italia, þ.e. Ítalíutúrinn. Giro er ein af þrem „Grand tour“ keppnunum, en það eru þriggja vikna hjólakeppnir um Ítalíu, Frakkland og Spán. Af þeim er Tour de France sú lang frægasta en hver þeirra hefur sinn sjarma og sérkenni. Allar munu þær hinsvegar bjóða upp á spennu og fallegt landslag.

Grandtúrarnir eru ólíkir einsdagskeppnunum sem eru flestar haldnar á vorin, þær frægustu í Belgíu og Hollandi. Einsdagskeppnirnar eru gjarnan mikill hasar frá upphafi til enda en grand túrarnir geta verið taktísk margra daga einvígi og störukeppni. Við fyrstu sýn virðast keppnishjólreiðar einungis vera mikill fjöldi af hjólurum að hjóla saman í hóp. Fyrir þá sem hafa áhuga á að fylgjast með, þá þarf ekki að vita mörg atriði til að njóta. Hér eru nokkrir punktar sem gætu gert áhorfið aðeins skemmtilegra.

24177083_1503142106401830_378961927720583838_n
Grandtúrarnir hafa verið í gangi í um og yfir 100 ár.

 

  • Grand túrarnir eru ólíkt eins dags hjólakeppnum í raun blanda af mörgum keppnum. Giro er alls 21 dagleið og þetta árið byrja fyrstu þrjár dagleiðirnar í Ísrael. Dagleiðirnar eru ólíkar, sumar eru flatar, aðrar hæðóttar, enn aðrar í fjöllunum. Fjallaleiðirnar geta verið löng klifur upp Alpana en hæðóttar brautir geta verið stuttar snarbrattar brekkur. Inn í túrana bætast svo tímatökur (TT) og jafnvel liðstímatökur (TTT).
  • Hjólarar eru með ólíka styrkleika og geta því leiðirnar haft mikið að segja um hver stendur uppi sem sigurvegari í lokin. Sumir munu njóta sín þegar mikið af fjöllum eru í keppninni en aðrir munu hafa yfirburði ef mikið er af tímatökum. Sá sem stendur uppi sem sigurvegari þarf að geta haft úthald og styrki til að þola 21 ólíka dagleið.
  • Hér flækist þó málið, þar sem í grand túrum eru ekki allir að reyna að standa uppi sem sigurvegari eftir 21 dagleið. Þeir sem eru að reyna að klára túrinn á skemmstum tíma eru að keppa í heildarkeppninni (general classification) og sá sem er á bestum tíma í heildarkeppninni í lok dags fær þann heiður að vera í sérstakri treyju (gulri í Tour De France, bleikri í Giro, rauðri í Vuelta á Spáni).
  • Hinsvegar eru fleiri keppnir innan hvers grand túrs. Sumir reyna að sigra dagleiðir (stage win) á meðan aðrir reyna við hinar treyjurnar sem eru í boði, þ.e. treyjur sem fást fyrir stig í fjöllunum eða í sprettum.
  • Það fara ekki allir í túrana til að vinna. Liðin eru mörg og í hverju liði eru margir hjólarar, hver með sitt hlutverk. Í liðunum er skýr goggunarröð þar sem markmiðið er að sterkustu hjólararnir séu sem lengst í skjóli. Liðin vilja líka hafa menn til að elta og loka árásum, eða senda í „breik“ til að hafa stjórn á aðstæðum.
  • Sjaldnast þarf að horfa á allar dagleiðirnar. Ef dagleiðin er flöt, er ekki ólíklegt að stærstur hluti hópsins hjóli saman meirihluta dagsins og að keppnin endir í spretti þar sem sprettarar (sprinters) reyna að sigra dagleiðina. Þá er oft fjörið bara á síðustu kílómetrunum. Sum liðin byggja lið upp í kringum einn sprettara þar sem markmiðið er að koma honum í stöðu til að geta gefið allt í lokasprettinn.
  • Ef dagleiðin fer í fjöllin má búast við að heildarkeppnin (GC) lifni við og að hún endi í einvígi upp fjöllin hjá þeim sem vilja sigra heildarkeppnina. Í fjöllunum munu sprettararnir ekki reyna við sigur og spara sig fyrir aðrar dagleiðir.
  • Einn af kostunum við hjólreiðar er að ódýrt er að horfa, ársáskrift hjá Eurosport (https://is.eurosportplayer.com/) er einungis 30 evrur og tryggir þér áskrift að öllum hjólreiðakeppnum sem þú vilt horfa á.
  • /r/peloton er líka frábær vettvangur. Þar er yfirleitt að finna upphitun og niðurstöður allra keppna og dagleiða.
  • Að lokum er erfitt að njóta keppninnar ef maður veit ekki hvaða hlutverk hver hefur og hverjir eru með hvaða markmið. Það verður efni í næsta pistill. Upphitun hjólafrétta fyrir Giroið.

 

 

 

Next Article

One Reply to “Hvað eru eiginlega þessir Grandtúrar?”

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar