Uppbókað 10 dögum fyrir vorfögnuðinn

Nú á laugardaginn fer fram vorfögnuður Enduro Ísland, en þetta er fyrsti af þremur fögnuðum/mótum ársins. Í þetta skiptið verður byrjað í nágrenni Vífilstaðavatns og fjöll og hæðir þar í kring þrædd og endað í Hafnarfirði. Að venju er svo endað í góðu partíi. Þegar er orðið fullt í mótið, en 92 þátttakendur eru skráðir og var uppbókað 10 dögum fyrir keppni.

Lárus Árni Hermannsson, einn umsjónarmanna vorfagnaðarins, segir í samtali við Hjólafréttir að Enduro keppnir virðist alltaf höfða til stærri og stærri hóps, en aldrei áður hefur orðið fullt í keppnir með svona löngum fyrirvara. „Við bjuggumst við að þetta myndi gerast, en kannski ekki svona snemma,“ segir hann og bætir við að venjulega hafi fólk beðið eftir veðurspánni, en núna hafi verið uppbókað áður en langtímaspáin lá fyrir.

18194725_1924965377761099_6852293701816168698_n
Ljósmynd/Enduro Ísland

„Sjaldnast haft heppnina með okkur varðandi veður“

Veðurspáin framundan er ekki upp á marga fiska, en Lárus segir að það muni eflaust hafa lítil áhrif. „Við höfum sjaldnast haft heppnina með okkur varðandi veður. En það er eitthvað með hópinn þannig að fólk mætir alltaf,“ segir hann kíminn. Vísar hann til þess að það sem heilli fólk mikið í tengslum við þessar keppnir, umfram að hjóla bara, sé félagslegi þátturinn.

Enduro er frekar nýtt sport og varð til í Frakklandi milli 2005 og 2007 að sögn Lárusar. Fyrir þann tíma hafi menn annað hvort verið á þungum fjallahjólum í fjallabruni eða í léttari í svo kölluðu cross country, en þær kallast alla jafna fjallahjólreiðar hér á landi. Í fjallahjólreiðunum þarf gríðarlega gott úthald meðan fjallabrunið krefst mun meiri tækni á hjólinu.

 

 

 

 

Þurfti að fanga anda fjallahjólreiða

Lárus segir að á þessum tíma hafi komið fram öflug „trail“ hjól sem hafi fyllt upp í bilið þarna á milli. Upphaflega hafi menn notað þau til að hjóla á fjöllum og fara skemmtilegar leiðir þar. Fljótlega fóru menn þó að hugsa hvernig hin fullkomna keppni fyrir svona 150 mm Enduro hjól væri. Vildu menn einnig fanga anda fjallahjólreiða og úr varð þetta sérstaka skipulag á keppni.

Farin er löng leið, en henni er skipt í stuttar sérleiðir. Hver sérleið þarf að vera með allavega 80% af vegalengdinni niður á við. Hver sérleið er að hans sögn á bilinu 30 sekúndnur upp í 3-5 mínútur. „Við viljum hafa þær sem lengstar, en við erum með takmarkað há fjöll hér,“ segir Lárus.

21762390_2000454203545549_8877806834889781306_o
Ljósmynd/Enduro Ísland – Félagslegi þátturinn er ekki síðri í Enduro mótunum.

20-30 km og 700-1000m hækkun

Milli sérleiða hjólar hópurinn svo saman að næstu sérleið og þarf oft að hjóla talsvert upp í móti. Þær leiðir telja hins vegar ekki í tímatöku, en viðkomandi þarf að vera í formi til að geta hjólað alla leiðina og keppt svo þess á milli. Í heild er hjólað um 20-30 kílómetrar og er hækkunin sem þarf að fara á bilinu 700-1000 metrar að hans sögn. „Þú þarft að vera í nægilega góðu formi til að þola svona heilan dag, en tæknin þarf líka að vera til staðar,“ segir Lárus.

Sem fyrr segir er orðið uppselt í keppnina, en Lárus segir að ástæða þess að ekki sé pláss fyrir fleiri sé að slíkt myndi gera alla umgjörð og tímastjórnun of erfiða. Svipað sé upp á teningnum í flestum Enduro keppnum í heiminum.

Brautir fyrir svona keppnir eru almennt kynntar með viku fyrirvara og jafnvel niður í fjóra daga. Segir Lárus að það sé gert til að koma í veg fyrir að einhverjir hafi mikla forystu eftir að hafa náð að æfa mikið þær leiðir sem keppt er í. Hluti af því hvernig Enduro keppnir eru settar upp er nefnilega að allir þátttakendur eigi að geta farið brautina blindandi, þ.e. án þess að hafa skoðað hana áður.

31488943_2116961071894861_4982868581185224704_o

Vorfögnuðurinn er ellefta keppnin sem Enduro Ísland stendur fyrir. Næsta mót – sumarfögnuðurinn – fer svo fram á Ísafirði.

Frekari upplýsingar á heimasíðu Enduro Ísland

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar