„Ef ég ætlaði einhvern tímann að vinna Íslandsmeistaratitilinn var það í þetta skipti“

Hafsteinn Geir Ægisson, Íslandsmeistari í götuhjólreiðum í áttunda skiptið.

Fyrir Íslandsmótið í gær voru níu ár síðan Hafsteinn Ægir Geirsson landaði síðast titlinum og sjö ár síðan hann varð síðast Íslandsmeistari í hjólreiðum, en það var í fjallahjólreiðum. Þrátt fyrir um tveggja áratuga keppnisreynslu og að vera enn í fremstu röð virtust ekki margir telja hann líklegan til afreka í ár og kristallaðist það ágætlega við marklínuna þar sem flestir virtust telja nokkuð öruggt að Birkir Snær Ingvason, sem var með Hafsteini í breikinu og atti kappi við hann í endaspretti, myndi verða nokkuð öruggur með sigur. Hafsteinn sýndi hins vegar að það er enn heilmikið afl í löppunum, þrátt fyrir að hann verði ekkert yngri og hafi fagnað fertugsafmæli fyrr í sumar.

Hafsteinn ræddi við Hjólafréttir og fór meðal annars yfir hvernig keppnin spilaðist, hvernig styrkleikar hans nýttust í þessari braut, samkeppnina og það afl sem þurfti til að taka gullið. Lesa má nánar um keppnina sjálfa í fyrri frétt Hjólafrétta. https://hjolafrettir.is/2020/08/23/hafsteinn-og-agusta-islandsmeistarar-i-gotuhjolreidum/

Hafsteinn hjólar með Trek-liðinu, en í því voru í gær einnig nokkrir aðrir sterkir hjólarar; Ingvar Ómarsson, Kristinn Jónsson, Hákon Hrafn Sigurðsson og Steinar Þorbjörnsson.

Hvalfjörðurinn fullkomin braut fyrir breik

„Ef ég ætlaði einhvern tímann að vinna Íslandsmeistaratitilinn var það í þetta skipti,“ segir Hafsteinn þegar hann er spurður út í breiktilraunina og hvað fór í gegnum huga hans þegar hann skellti sér af stað frá pelotoninu. Þannig segir hann að aðstæður í Hvalfirði séu með allra besta móti fyrir sig. Þar séu margar brekkur, en engin mjög löng. „Þetta er því perfect fyrir breik.“ Bendir Hafsteinn á að hann sé ekki léttasti maðurinn í pelotoninu, en helsti styrkleiki hans sé að geta verið á háu álagi í langan tíma.

Hann hafi því byrjað strax neðst í Kjósaskarði á leiðinni upp að lauma sér í breik. Eyþór Eiríksson fylgdi honum en tilraunin var heldur máttlaus að sögn Hafsteins. „Svo upp Kjósaskarðið var hraðinn minni en ég bjóst við. Það gerðist lítið og það var lítill áhugi í hópnum,“ segir hann og bætir við að hann hafi einnig skynjað að einn af sterkari hjólurunum, Eyjólfur Guðgeirsson, sem keppir fyrir Kríu, væri ekki upp á sitt sterkasta sem auki möguleikana á því að breik splitti upp hópnum. Allt hafi þetta mótíverað hann að skella sér í breik stuttu eftir að þeir fóru framhjá Vindáshlíð á leiðinni niður skarðið. „Ef ég fengi einhvern með mér í þetta breik gæti það gengið,“ segir hann.

Guðmundur Sveinsson í Cube var sá eini sem fylgdi strax á eftir, en Hafsteinn segir að hann hafi einnig séð einn appelsínugulan koma nokkuð seinna. Hann hafi talið að það væri Thomas Skov, en nokkru síðar tekið eftir að það væri Birkir Snær, sem varð Íslandsmeistari árið á undan.

Pelotonið á leið um Hvalfjörð.

Gummi Sveins og Birkir „draumabreikið“

„Þetta er draumabreikið að fara með í,“ staðhæfir Hafsteinn. Þannig þekki hann þá báða nokkuð vel og hafi talið sig vita hversu góður Gummi Sveins sé. „Hann hefði átt að vera orðinn þreyttur eftir 130 km á svona tempói, en hann var mun betri en ég bjóst við,“ segir Hafsteinn og bætir við að Birkir sé algjör vinnuhestur sem gefi ekkert eftir og að þægilegt sé að fara í breik með slíkum manni sem ætli sér ekki að tapa niður bilinu.

Þarna voru þeir þá komnir þrír af fimm sem höfðu einmitt farið í breik á Íslandsmótinu í fyrra, en sú braut endaði hins vegar í klifri upp Tindastól þar sem Birkir hafði sigur, en Ingvar Ómarsson náði öðru sæti eftir að hafa náð öðrum úr breikinu í klifrinu.

Nú var hins vegar ekkert stórt klifur framundan og Hafsteinn segir að með tvo virkilega vinnusama aðila í breikinu hafi hann strax metið það svo að þeir ættu séns. „Ég vissi að Airport direct væri ekki að fara að loka á Birki og ég vissi að Ingvar og Kristinn væru ekki að fara að loka á mig. Það er hins vegar alltaf spurningin hvort það slokkni á Birki eða Gumma á leiðinni,“ segir Haffi og átti þar bæði við hvort þeir hefðu lappirnar þennan dag í að klára í breiki eða ætluðu að kommita alla leið.

Guðmundur var einn í Cube-liðinu og breik því vænlegur kostur og Birkir hefur auðvitað reynslu frá því í fyrra að vinna þetta mót í breiki. Það var því nokkuð líklegt að þeir myndu kommita að fullu og það reyndist niðurstaðan og þríeykið vann upp ágætt forskot á pelotonið meðan lítið var um svör frá pelotoninu. Reyndar var það helst Ingvar sem gerði tilraunir til að sprengja pelotonið upp í brekkum fyrir aftan þá, en því var lokað nokkuð fljótt.

Vissi að þeir myndu halda bilinu eftir Botn

Breikið fékk reglulega að vita hvað langt væri í hópinn á eftir og í Botni var bilið komið í 3 mínútur. „Þá vissi ég að þetta myndi nást, að breikið myndi ná að keyra saman í mark,“ segir Hafsteinn.

Þegar kom að brekkunni eftir Hvalstöðina segist Hafsteinn hafa keyrt nokkuð þétt upp hana. „Birkir var alveg á dekkinu en Gummi datt þar út.“ Eftir það hafi þeir Birkir haldið áfram en samt gert sér grein fyrir að þeir mættu ekki gera of mikið til að eiga eitthvað inni fyrir endasprettinn. Þá hafi einnig verið léttur mótvindur þegar þarna kom við sögu og hann hafi ekki viljað brenna þær eldspýtur sem eftir voru og á sama tíma líklega aðeins draga hinn áfram í frekari breik tilraunum frekar en að ná að slíta.

Vel fagnað þegar komið var í mark.

Ákvað að fara í breik fyrir keppnina

„Ég sá að Birkir var orðinn þreyttur. Ekki að ég væri ferskur, en mér fannst ég samt ferskari en hann,“ segir Hafsteinn og niðurstaðan hafi því verið sú að hann ætti mestan séns í endasprett. „Ég get alveg tekið sprett þó ég sé enginn sprettari,“ bætir hann við, en spretturinn í þetta skiptið dugði og náði hann að búa til nokkrar hjólalengdir á Birki á síðustu 100-200 metrunum.

Spurður hvort hann hafi verið búinn að ákveða að fara í breik áður en keppnin hófst játar Hafsteinn því. Segir hann að í dag geri hann sér orðið grein fyrir keppnir hvaða strategía sé best. Stundum sé það að gera lítið og reyna að vera ferskur þegar komi að brekkum, en í dag hafi besti möguleikinn verið að fara í breik. „Í svona keppni ef maður ætlar að vinna er það breik eða endasprettur. Þú vinnur ekki á einni brekku þó þú getir þynnt þar hópinn,“ segir Hafsteinn.

Hafði ekki rætt breiktilraunir við Ingvar

Ingvar Ómarsson, einn sterkasti hjólreiðamaður Íslands síðustu árin er með Hafsteini í Trek-liðinu. Ljóst er að hann hefur alltaf metnað fyrir að vinna mót. Spurður hvort þeir hafi eitthvað rætt taktíkina fyrir keppnina og að Hafsteinn myndi breika segir Hafsteinn svo ekki hafa verið. „Ingvar veit samt að í svona braut mun ég reyna þetta. Þetta var ekki rætt fyrir, en það er heldur ekki algengt að þetta gangi upp, þó að svo hafi verið á Íslandsmótinu í fyrra,“ segir Hafsteinn og tekur fram að hjá Trek sé kerfið ekkert of flókið: „Í okkar liði er ekki mikið skipulag. Bara að skemma ekki fyrir hvor öðrum og dreifa álagi við að loka bilum.“

Segir hann að pelotonið hafi að sínu mati sofnað smá á verðinum og leyft þeim þremur að ná upp góðu forskoti sem hafi svo ekki verið hægt að brúa. Þannig  reyni Airport direct  almennt að loka bilum, en í dag voru þeir með sinn mann í breiki. Kríuliðið sé með bæði Eyjólf og Rúnar. Eyjólfur sé mjög sterkur alla jafna og Rúnar öflugur meðal annars að loka. Hins vegar séu brekkurnar hans veikleiki og þá geti Eyjólfur endað einn. Þetta hafi orðið til þess að þeir þrír fengu í raun frítt spil og náðu upp þessu forskoti.

Á leið upp Kjósaklifrið norðan megin.

Sjö titlar og níu ár frá síðasta götuhjólatitli

Hafsteinn hefur sem fyrr sagt keppt í hjólreiðum í um tvo áratugi. Á þeim tíma hefur hann nælt sér í fjölda Íslandsmeistaratitla í götuhjólreiðum, tímatöku og fjallahjólreiðum. Hafa fjallahjólreiðarnar reyndar verið hans sterkasta grein undanfarin ár, þó hann hafi oft lent í öðru sæti á eftir Ingvari. Nokkuð er þó síðan hann náði í síðasta Íslandmeistarabikarinn, en það var árið 2011 í götuhjólreiðum og árið 2013 í fjallahjólreiðum.

Ef horft er á götuhjólreiðarnar varð Hafsteinn Íslandsmeistari árin 2005-2009 og svo aftur 2011 áður en hann tók titilinn á ný í gær.

Slaka á, vinna vel í grunninum og hafa gaman

Spurður út í æfingaprógramm og þjálfun segir Hafsteinn að þegar komið sé á þennan aldur sé formið svipað frá ári til árs, en að mestu skipti að vinna vel í grunnforminu. „Ég hef lagt gríðarlega vinnu í grunninn síðustu 3 ár. Það sem ég breytti fyrir þetta ár var að hvíla meira og vera meira á fjallahjóli,“ segir Hafsteinn. Segist hann sannfærður um að meiri tími á fjallahjólinu brjóti prógrammið betur upp og þá byggir það undir meira „torque“ sem sé gott til að „krúsa svona í breikum.“ „Aðalmálið er samt að ég hef náð að slaka meira á á milli æfinga,“ ítrekar Hafsteinn þó.

Hann segist lítið taka strúkúeraðar æfingar í dag. Hann geri það reyndar af litlu leyti á trainer, en þegar hann fari út meti hann stemninguna frá degi til dags og hagi æfingum eftir því. „Fólk spyr mig hvernig sé hægt að halda dampi svona lengi. Mitt svar er að það þurfi að hafa gaman af þessu,“ segir hann.

Var með 334w í NP

En hvað þarf mikið afl til að sigra á Íslandsmóti? Hafsteinn gefur upp að í gær hafi hann verið með 274 í meðalwött yfir 4 klst og 1 mín, en að normalized power hafi verið 334w.

Um næstu helgi verður svo Íslandsmótið í maraþon fjallahjólreiðum (XCM) haldið í Heiðmörk. Hafsteinn staðfestir að hann muni mæta þangað, en þar mun hann meðal annars mæta fyrrnefndum Ingvari sem er núverandi Íslandsmeistari í ólympískum fjallahjólreiðum (XCO) frá því fyrr í sumar og í maraþon fjallahjólreiðum frá í fyrra. Verður fróðlegt að sjá hvort hann muni ná að byggja þar á árangrinum frá í götuhjólakeppninni eða hvort að Ingvar muni áfram hafa yfirhöndina þegar kemur að fjallahjólakeppnum líkt og undanfarin ár.

Previous Article
Next Article

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar