Hafsteinn og Ágústa Íslandsmeistarar í götuhjólreiðum
Íslandsmótið í götuhjólreiðum fór fram í dag í eins góðu ágúst veðri og hægt er að óska sér, blankalogn og sólríkt. Keppnin fór fram í Hvalfirði en flestir sem hafa hjólað Hvalfjörðinn vita að hann er krefjandi. Mikið um stuttar og punchy brekkur og til viðbótar var tekinn krókur upp Kjósarskarðið. Endamarkið var við Lambhaga, stutt brekka með litlum halla. Leiðin var þannig að keppnin gæti þróast á marga vegu. Einhverjir myndu vilja sjá hana fara í fjöldasprett, á meðan aðrir myndu vilja slíta hópinn í brekkum eða komast í breik. Keppnin endaði þó ekki í fjöldaspretti, Hafsteinn Ægir Geirsson átti eftir að sigra tveggja manna endasprett og Ágústa Edda kom ein í mark eftir að hafa slitið sig frá hópnum þegar um 20 km voru eftir í mark.
Hafsteinn Ægir Íslandsmeistari í fyrsta sinn frá 2011
Alls voru 156 km sem biðu Elite karla á þessum sólríka degi. 19 lögðu af stað og hélst hópurinn vel saman framan af keppni. Eitthvað teygðist á hópnum í brekkunum á fyrri hluta leiðarinnar en hópurinn hélst nokkuð vel saman þar til snúið var við í Kjósarskarðinu.
Í botninum í Kjósinni rétt áður en komið var aftur í Hvalfjörðinn sluppu þrír hjólarar frá hópnum. Íslandsmeistari síðasta árs, Birkir Snær Ingvason, Guðmundur Sveinsson og gamla brýnið Hafsteinn Ægir Geirsson voru komnir í breik en allir þrír, auk Thomas Skov og Stefáns Orra Ragnarssyni, voru í breikinu sem hafði úrslitaáhrif á Íslandsmót síðasta árs. Þeim tókst að ná góðu bili fljótlega og strax voru þeir komnir með 2 mín og 40 sek á toppnum á Kjósarklifrinu á leiðinni til baka.
Nú myndaðist áhugaverð staða, þar sem margir sterkir hjólarar sátu eftir í aðalhópnum, þ.m.t. Ingvar og Óskar Ómarssynir, Kristófer Gunnlaugsson frá Airport Direct og Eyjólfur Guðgeirsson en allir væru þeir til í að loka bilinu og komast í endasprett en Eyjólfur sá eini sem ekki hafði liðsfélaga í breikinu.
Í aðalhópnum myndaðist þó ekki samvinna sem merkti að breikið náði að halda góðu bili og fljótlega varð ljóst að breikið myndi skila sér fyrst í mark. Guðmundur Sveinsson dróst aftur úr þeim Hafsteini og Birki í brekkunni eftir hvalstöðina og ljóst að endaspretturinn yrði á milli þeirra tveggja. Hafsteinn var sterkari í dag og náði að búa til fjögurra sekúndna bil og koma fyrstur í mark, Íslandsmeistari í áttunda sinn. Birkir kom annar í mark og Guðmundur Sveins þriðji en fyrstur úr aðalhópnum varð Óskar Ómarsson tæpum fjórum mínútum á eftir Hafsteini, en Óskar hafði náð að breika frá pelotoninu. Kristófer Gunnlaugsson kom svo fimmti eftir endasprett við Ingvar Ómarsson og Eyjólf Guðgeirsson sem komu þar á eftir.
Ágústa meistari – þriðja árið í röð
Í kvennaflokki var farin 132 km leið með 1.555 metra hækkun, en það var sama leið og karlarnir, ef undan er skilinn kaflinn út að Tíðaskarði og til baka. Ágústa Edda Björnsdóttir hafði landað Íslandsmeistaratitlinum í götuhjólreiðum síðustu tvö ár, auk Íslandsmeistaratitlum í tímatöku. Hún var því sigurstrangleg fyrir keppnina, en það voru þó sterk nöfn sem mættu til leiks á móti henni, meðal annars liðsfélagi hennar úr Tindi, Bríet Kristý Gunnarsdóttir, Hafdís Sigurðardóttir og Silja Rúnarsdóttir úr HFA og María Ögn Guðmundsdóttir sem keppir fyrir Vestra.
Silja þurfti því miður að hætta keppni vegna bilunar fljótlega eftir start en aðrar voru á fullri ferð inn í Hvalfjörðinni. Á leiðinni um að Kjósinni byrjuðu læti og Ágústa, Bríet, Hafdís, María, Anna Guðrún Gunnlaugsdóttir og Elín Björg Björnsdóttir slitu sig frá restinni. Um tíma var Ágústa stök á undan en það entist ekki og fljótlega kom hópurinn saman á ný.
Aftur slitnaði hópurinn í Kjósaklifrinu og voru Ágústa, Bríet, Hafdís og María Ögn nú fremstar. Að lokum tókst Ágústu að fara í solo breik og tókst henni hægt og rólega að stækka bilið þar til hún var komin í 4 min forystu í endamarkinu og landaði þar með titlinum þriðja árið í röð.
Bríet hafði þær Hafdísi og Maríu í endasprett og komu þær í þessari röð í mark.