Ágústa og Ingvar vörðu Íslandsmeistaratitlana

Ágústa Edda Björnsdóttir og Ingvar Ómarsson endurtóku í kvöld leikinn frá í fyrra og stóðu uppi sem Íslandsmeistarar í tímatöku (TT) á Íslandsmótinu sem fram fór við Grindavík. Þau tóku jafnframt bikarmeistaratitlana í ár, en mótið var jafnframt síðasta bikarmót ársins í tímatöku. Þetta er þriðji Íslandsmeistaratitill Ágústu í tímatöku, en hún tók einnig titilinn árið 2017.

Þetta var lengsta tímatökukeppni ársins, en í Elite og U23 flokkum var farin 32 km leið, eða um 10km lengra en í öðrum keppnum ársins og 10 km lengra en á Íslandsmótinu í fyrra.

Aðstæður voru góðar á Nesveginum í kvöld, eða svo gott sem logn og örlítill úði. Brautin er nokkuð punchy, nokkrar styttri brekkur og heildarhækkun fram að snúningskeilu um 70 metrar. Þetta er því braut sem getur dottið bæði fyrir létta hjólara sem græða á brekkunum sem og þá sem eru aðeins stærri og geta mögulega wattað aðeins betur á beinni köflum.

Ágústa hafði fyrir mótið í kvöld tekið þátt í þremur bikarmótum og sigrað þau með nokkrum yfirburðum, enda er tímatakan líklega hennar sterkasta svið. Fyrirfram var því viðbúið að hún tæki titilinn, en hún mætti hins vegar talsvert meiri samkeppni en áður á þessu ári. Var það Rannveig Anna Guicharnaud sem átti mjög öflugan dag. Var hún  aðeins 8 sekúndum á eftir Ágústu eftir 7,5km, en Ágústu tókst svo að bæta öðrum 5 sekúndum við við 10km markið. Á næstu 12 km hélt Rannveig bilinu nokkuð vel í skefjum, en það var komið í 18 sekúndur eftir 22km. Að lokum þegar komið var í endamarkið var munurinn 35 sekúndur, en ef horft er til fyrri keppna í ár, sem voru styttri, var munurinn umtalsvert meiri á Ágústu og næsta keppenda.

Ágústa Edda Björnsdóttir var Íslandsmeistari í tímatöku.

Í karlaflokki var búist við harðri baráttu á milli Ingvars og Rúnars Arnar Ágústssonar, en Rúnar var Íslandsmeistari 2018 og hafði betur gegn Ingvari í bikarmóti 2 á þessu ári. Ingvar sigraði hins vegar mót 1 og 3 og 4, en Rúnar tók reyndar ekki þátt í því síðastnefnda. Þá var einnig spenna um hver myndi verma þriðja sætið, en þeir Eyjólfur Guðgeirsson og Hákon Hrafn Sigurðsson skiptust á að taka þriðja sætið í fyrstu tveimur keppnunum, en Hákon tók það svo í fjarveru Eyjólfs í þriðju keppninni.

Eftir 7,5 km munaði aðeins 2 sekúndum á þeim Ingvari og Rúnari. Ingvar náði að bæta öðrum 2 sekúndum við næstu tímamælingu, en það var svo fram að snúningskeilu og eftir hana sem Ingvar bætti mestu við og var kominn með 14 sekúndur á Rúnar eftir 22 km. Næstu 10 km voru að mestu óbreyttir, en að endingu kom Ingvar 13 sekúndum fyrr í mark en Rúnar.

Ingvar Ómarsson varði Íslandsmeistaratitilinn frá í fyrra.

Í baráttunni um þriðja sætið byrjaði Eyjólfur betur og var með 8 sekúndur á Hákon eftir 10 km. Á seinni hlutanum seig Hákon þó fram úr og hefur þríþrautareynslan í lengri brautum þar líklega ekki skemmt fyrir sem og fyrri Íslandsmeistaratitlar. Var hann að endingu 35 sekúndum á undan Eyjólfi, en þó 1:22 á eftir Ingvari.

Í U23 flokki karla var Sæmundur Íslandsmeistari. Í junior flokki voru þau Jóhann Dagur Bjarnason og Bergdís Eva Sveinsdóttir Íslandsmeistarar.  Davíð Jónsson varð Íslandsmeistari í U17 og Ísak Gunnlaugsson í U15.

Tímatökutímabilið hefur eins og annað litast af Covid og meðal annars var ákveðið að fella niður síðasta mótið til að koma að fjórða stigamótinu í götuhjólreiðum í byrjun september. Mótin hingað til hafa verið nokkuð fjölbreytt. Fyrst var það Vatnsleysuströndin, 22km og smá punchy, en almennt nokkuð jöfn. Næst var það Suðurstrandarvegurinn frá Þorlákshöfn, en það er að mestu marflöt braut. Þriðja keppnin var á Akureyri, hluti af Hjólahátíð Greifans og var stysta keppni ársins, 15km og einnig marflöt. Fjórða keppnin var svo Krýsuvík frá Seltúni að námu og til baka, sem sagt með þó nokkrum bröttum brekkum á leiðinni, þó engin þeirra sé mjög löng.

Previous Article
Next Article

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar