Criterium – hverjir eiga möguleika fyrir síðasta mótið?

Frá ræsingu elite kvk og master kk í þriðja bikarmótinu 7. júlí.

Síðasta criterium stigamót ársins fer fram nú á morgun, þriðjudaginn 18. ágúst. Gríðarleg spenna er í kvennaflokki þar sem fjórar efstu eiga allar góðan möguleika á að landa titlinum. Í karlaflokki er efsti maður kominn með aðra hönd á bikarinn, en spennan þeim mun meiri um sætin þar á eftir.

Er þetta sjöunda bikarmótið sem var upphaflega á skrá, en sjötta mótinu, sem áður hafði verið frestað, hefur nú verið aflýst vegna áhrifa af Covid á keppnisdagatalið. Eftir keppnina á morgun verður því ljóst hver munu standa uppi sem bikarmeistarar.

Sjá má heildarstöðuna í bikarmótinu á heimasíðu HRÍ hér.

Kristó í mjög vænlegri stöðu

Í elite-flokki karla er Kristófer Gunnlaugsson með 172 stig og ágætis forskot á næstu keppendur og er í raun öruggur með annað sætið í bikarkeppninni. Þarf hann aðeins 8 stig í þessari keppni til að landa bikarmeistaratitlinum, en það jafngildir því að ná 13. sæti.

Sá eini sem á möguleika á að stela bikarnum af Kristófer er liðsfélagi hans í Airport direct liðinu, Óskar Ómarsson. Er Óskar með 130 stig, eða 42 stigum á eftir Kristófer. Það myndi hins vegar kalla á sigur hjá Óskari og að Kristófer væri í 13. sæti eða neðar. Ef þeir enda jafnir að stigum verður Kristófer bikarmeistari vegna fleiri sigra á mótaröðinni, tveir hingað til á móti engum hjá Óskari.

Í þriðja og fjórða sæti eru svo Eyjólfur Guðgeirsson og Hafsteinn Ægir Geirsson með 122 stig. Það er því í rauninni miklu meiri barátta um annað sætið í elite-flokki karla og gæti í raun allt gerst þar mæti þeir allir til leiks.

Elite kk á fullu í critbrautinni á Völlunum í júlí.

Eyþór Eiríksson og Stefán Orri Ragnarsson eru í fimmta og sjötta sæti og gætu einnig að einhverju leiti blandað sér í þessa baráttu. Aðrir eru talsvert neðar, en Birkir Snær Ingvarsson, núverandi Íslandsmeistari í götuhjólreiðum, er sjöundi með 79 stig. Á laugardaginn mun hann reyna að verja Íslandsmeistaratitilinn í götuhjólreiðum og því verður áhugavert að sjá hvernig honum gengur á morgun og hvort hann muni nota keppnina sem tune-up eða venjulega æfingu.

Smá auka flækjur

Það skal þó tekið fram að Hafsteinn hefur tekið þátt í öllum bikarkeppnunum hingað til og að samkvæmt bikarreglum HRÍ dettur ein keppni út í heildarstigakeppninni. Í hans tilfelli er hann með lægst 4 stig í einni keppni og því mætti í raun horfa til þess að hann sé með 118 stig fyrir þessa síðustu keppni ef hann ætlar sér að keppa um sæti á pallinum við þá Óskar, Eyjólf og Eyþór og Stefán. Er Hafsteinn sá eini í efstu sætunum sem hefur tekið þátt í öllum mótunum og mun þessi regla því ekki hafa áhrif á aðra af efstu keppendunum.

Enn frekari flækjur

Til að flækja málin enn frekar var á þriðja bikarmótinu áhugaverð uppákoma þar sem dómarar voru ekki tilbúnir að skera upp úr hvort hefði verið í þriðja sætinu, Eyjólfur eða Óskar. Fengu þeir báðir brons á mótinu, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Vegna tæknilegra örðuleika í mótakerfinu er hins vegar Eyjólfur skráður með 32 stig (3ja sæti) í þeirri keppni og Óskar með 26 stig (4. sæti). Hjólafréttir hafa fengið staðfest að þeir fá báðir 32 stig í keppninni og því er Óskar í raun með 136 stig í heild en ekki 130 eins og kemur þar fram núna, en Eyjólfur með óbreyttan stigafjölda.

Óskar og Eyjólfur fengu báðir brons á þriðja mótinu.

Mjótt á munum í kvennaflokki

Í elite-flokki kvenna er  sem fyrr segir spennan mun meiri en hjá körlunum. Fyrir þetta síðasta bikarmót er Elín Björg Björnsdóttir efst með 142 stig og einn sigur í farteskinu. Ágústa Edda Björnsdóttir og Hrefna Sigurbjörg Jóhannsdóttir eru hins vegar í öðru og þriðja sæti með 140 stig og er Ágústa með tvo sigra fyrir mótið. Bríet Kristý Gunnarsdóttir er svo fjórða með 132 stig, þar af tvo sigra. Þær fjórar berjast um titilinn, því næstu sæti eru með 40 stig í heildina og eiga því ekki séns á titilinum né að komast á pall í heildarkeppninni.

Bríet er meðal þeirra sem eiga möguleika á sigri í elite kvk. Á þriðja bikarmótinu stóð hún uppi sem sigurvegari.

Þess ber þó að geta að Hrefna hefur tekið þátt í öllum mótum hingað til og fengið stig í þeim öllum, frá 20 og upp í 40 stig. Þar sem eitt mót núllast út í heildarkeppninni gæti því farið svo að hún bæti ekki við sig stigum, eða að 20 stiga mótið detti út fyrir þetta sem skilar þá 22-50 stigum. Hún hefur því í raun minni möguleika en hinar þrjár til að bæta við sig stigum, en þær hafa allar misst af 1-2 mótum og því munu stigin á morgun bætast beint við heildarskorið þeirra.

Allar hafa sigrað

Í raun er ómögulegt að segja hver þessara þriggja eigi hér mestan séns á titlinum. Þó Ágústa verði að teljast sterk á pappír fyrirfram hefur Elín sigrað hana í einu af þeim þremur mótum sem Ágústa hefur tekið þátt í. Á sama hátt hefur Ágústa sigrað þær báðar í öðrum keppnum, en Bríet er með tvo sigra í keppnum sem Ágústa tók ekki þátt í. Það er því allt galopið fyrir keppnina á morgun.

Fyrir aðra flokka má nálgast upplýsingar á vef HRÍ.

Previous Article
Next Article

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar