Hjólreiðaveisla í skugga Covid19 – Staðan á Íslandsmótunum í næstu viku

Ef allt gengur að óskum varðandi sóttvarnareglur og þær verða samþykktar af ÍSÍ og sóttvarnarlækni (sjá nánar í fyrri frétt hér) má búast við hjólreiðaveislu í næstu viku. Ekki nóg með að stefnt sé að því að byrja á eitt stykki criterium móti á þriðjudaginn, þá eru Íslandsmót áformuð á miðvikudag, fimmtudag og sunnudag.
Mótstjóri á Íslandsmótinu í götuhjólreiðum hefur staðfest áformaða leið í elite flokkum við Hjólafréttir, en nánari frétta er að vænta á mánudaginn, eða strax og frekari upplýsingar liggja fyrir varðandi sóttvarnamál. Þetta vitum við um stöðu mótanna á þessum tímapunkti.
Íslandsmótið í TT – miðvikudagur kl 19:00
Það eru komnar nokkuð nákvæmar upplýsingar á vef HRÍ um mótið. Fyrst ber að nefna að það verður bæði bikarmót og Íslandsmót þar sem fimmta stigamót ársins, sem áformað var að halda 5. september, mun víkja fyrir Samskipamótinu í götuhjólreiðum. Gildir Íslandsmótið því einnig til bikarstiga.

Um svipað mót verður og ræða og Grindavíkur TT keppnin í fyrra. Þ.e. byrjað verður nálægt golfvellinum og haldið í vestur um Nesveg. Vegalengdir verða frá 13km upp í 32km eftir flokkum. Breytingin er að Elite kk og kvk og U23 kk fara nú 32km vegalengd í stað 20km í fyrra. Miðað við núverandi samkomutakmarkanir er miðað við að fjöldi þátttakanda verði að hámarki 90.
Íslandsmótið í TTT – fimmtudagur kl . 19:00
Óh hvað verður gaman að sjá alvöru keppni í þessu hér á landi. Keppt í 4 manna félagsliðum (allir keppendur verða að vera skráðir í sama félagsliðið – HFR, Tindur, Breiðablik o.s.frv.) og kynjaskipt. Fleiri en eitt lið velkomið frá hverju félagi.
Sama braut og daginn áður, þ.e. startað frá golfvellinum og notast við 20km vegalengdina, en þá er snúningspunkturinn við Reykjanesvirkjun.
Íslandsmótið í götuhjólreiðum – sunnudagur
Enn liggja ekki allar upplýsingar fyrir um þetta mót, en María Sæmundsdóttir mótsstjóri segir við Hjólafréttir að beðið sé staðfestingar við þeim reglum sem HRÍ lagði fram áður en skráning hefst og hægt er að greina nákvæmlega frá framkvæmd mótsins.
Stefnt er að því að mótið fari fram í Hvalfirði og að ráslína verði við Lambhaga, sem er norðan megin í firðinum, stutt frá gatnamótunum við þjóðveg 1. Mismunandi vegalengdir verða milli flokka, en María staðfestir að hjá Elite kk verður hjólað allan fjörðinn og að Tíðaskarði við suðurenda Hvalfjarðarvegar. Þar verði snúið við og hjólað til baka, en svo upp Kjósaskarðsveg og upp á Mosfellsheiði. Þar er aftur snúið við og farið niður og við Hvalfjarðarveg farið norður og endað við Lambhaga.

Leiðin í elite kvk er svipuð, nema að í staðinn fyrir að hjóla alla leið að Tíðaskarði er strax farið upp Kjósaskarðsveg og á Mosfellsheiði og svo til baka.
Samkvæmt óstaðfestum mælingum Hjólafrétta þýðir þetta elite kk fer 160km með um 1800m hækkun meðan elite kvk fer 130km með 1550m hækkun.
Það stefnir því í að við fáum mjög fjölbreytta braut. Rúllandi brekkur og smærri klifur í Hvalfirðinum, lengra klifur upp Kjósaskarðsveginn og að lokum flatan endasprett að sögn Maríu.