Bíða nú svara ÍSÍ og sóttvarnalæknis vegna Íslandsmóta

Ljósmynd/ Hleiðar Gíslason

Í dag tók í gildi ný auglýsing um takmörkun á samkomum vegna Covid-19 farsóttar. Áfram er horft til 2m reglu, að fjöldatakmörk á samkomum séu 100 manns og að nota skuli grímur þegar ekki sé hægt að tryggja 2m reglu o.s.frv.

Hins vegar er gefin undanþága frá 2m reglu fyrir íþróttaviðburði og æfingar. Á Íþrótta- og ólympíusamband Íslands að setja sérsamböndum sínum, þar með talið HRÍ, reglur um áhorfendur, einstaklingsbundnar sóttvarnir og sótthreinsun búnaðar og framkvæmd æfinga og keppna. Á þetta að gerast í samvinnu við sóttvarnalækni.

ÍSÍ birti svo í dag tilkynningu á vef sínum þar sem imprað var á þessum reglum og að sérsamböndin muni setja sér þær í samstarfi við ÍSÍ. Verður svo listi birtur yfir sérsambönd sem hafa fengið reglurnar staðfestar.

ÍSÍ segir engir áhorfendur

Í tilkynningu ÍSÍ kemur fram að áfram verði miðað við að engir áhorfendur verði leyfðir á íþróttaviðburðum þann tíma sem auglýsingin er í gildi (14.-27. ágúst). Samkvæmt nýrri tilkynningu frá HRÍ í dag stendur á þeim tíma til að halda sjöunda stigamót í criterium (í raun nr 6 þar sem sjötta mótið féll niður og veður ekki haldið),  Íslandsmótið í TT (einstaklings tímataka), Íslandsmótið í TTT (liða tímataka) og Íslandsmótið í götuhjólreiðum.

Þetta vekur upp spurningar með mótahald fyrir hjólreiðarnar á komandi viku, sem oft er sú stærsta í keppnishjólreiðum hér á landi. Hjólafréttir heyrður stuttlega í Bjarna Má Svavarssyni, formanni HRÍ, og Elsu Gunnarsdóttur, stjórnarmanni og starfsmanni HRÍ, vegna þessa.

HRÍ hefur þegar skilað inn sínum tillögum

HRÍ er þegar búið að skila inn drögum að reglum til ÍSÍ varðandi framkvæmd móta og sóttvarnir og segir Elsa að vonandi verði komin svör fyrir þriðjudaginn þegar criterium mótið er fyrirhugað. Samkvæmt tilkynningum yfirvalda er ljóst að bæði ÍSÍ og sóttvarnalæknir munu fara yfir reglurnar.

Spurð út í þau atriði sem helst hafi verið tekið á í þessum reglum segir Elsa að auglýsing ráðherra og minniblað sóttvarnalæknis gefi undanþágu fyrir 2m reglu í keppni. Hins vegar sé áskorunin helst sóttvarnamál fyrir og eftir keppni sem og ákvæðið með áhorfendur. Nefnir hún þar hvernig þurfi að passa upp á sóttvarnir í tengslum við afhendingu gagna, varðandi aðkomu starfsmanna t.d. í tímatökukeppnum og svo verðlaunaafhendingu eftir keppni.

HRÍ sér fyrir sér að hægt sé að hafa áhorfendur

Bjarni segir að stjórnin skilji ekki alveg afstöðuna með fjöldatakmörkun á áhorfendur fyrir hjólakeppnir, enda geti þeir dreifst um tug kílómetra svæði og líklega ógerlegt að ætla að koma í veg fyrir þá. Elsa segir að í drögunum að reglum sem sendar voru á ÍSÍ sé bent á hvernig sambandið sjái þetta fyrir sér. Þar sé áhersla lögð á að aðrir keppendur, aðstandendur og starfsmenn virði 2m reglu og aðrar sóttvarnaaðgerðir.

Varðandi götuhjólakeppnir þá segir Elsa að horft sé til fljúgandi ræsingar til að draga úr þéttleika keppenda fyrir ræsingu, en að þetta verði einnig unnið nánar í samráði við keppnisstjórnir, sem og hvernig flokkaskiptingar verði ef gera þurfi ráðstafanir vegna þessa.

Núverandi dagskrá samkvæmt áætlun

Gangi þetta allt samkvæmt plani má gera ráð fyrir að keppnisdagskrá komandi daga verði:

Þriðjudagur 18. ágúst – Sjöunda stigamót criterium

Miðvikudagur 19. ágúst – Íslandsmót í TT

Fimmtudagur 20. ágúst – Íslandsmót í TTT

Sunnudagur 23. ágúst – Íslandsmót í götuhjólreiðum

Previous Article
Next Article

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar