Ágústa slasaðist á æfingu í dag

Ágústa Edda Björnsdóttir, Íslandsmeistari og bikarmeistari í bæði tímatöku og götuhjólreiðum, slasaðist á æfingu á Imola á Ítalíu í dag, en þar var hún ásamt öðrum keppendum Íslands á heimsmeistaramótinu að undirbúa þátttöku á mótinu sem fram fer núna seinna í vikunni. Ágústa er óbrotin, en talsvert aum og verkjuð í mjöðminni eftir fallið. Hún segist samt sem áður ekki vera búin að gefa upp alla von með þátttöku á heimsmeistaramótinu, en að það muni ráðast á komandi dögum.
Í samtali við Hjólafréttir segir Ágústa að hópurinn hafi verið að æfa sig í tæknilegum hluta götuhjólabrautarinnar í dag. Í einni beygjunni hafi hún fundið eitthvað fara undan sér og dekkið renna. Ósjálfráð viðbrögð hennar hafi verið að grípa í bremsurnar og þá hafi hún, í stað þess að renna beint á vegrið, farið fram yfir sig og lent á hliðinni, réttara sagt mjöðminni.
Segist Ágústa strax hafa fundið að þetta væri slæmt og varð hún að liggja aðeins í götunni áður en hún reisti sig við. Svo hafi hún stífnað upp og verkirnir komu.
Farið var með Ágústu á sjúkrahús í bæði röntgen og sneiðmyndatöku og var niðurstaðan sú að hún væri ekki brotin. Hins vegar eigi hún nokkuð erfitt með gang og verkirnir séu talsverðir.
“Það er samt enn vonarglæta,” segir Ágústa og bætir við að hún sé ekkert búin að útiloka með framhaldið. “Ég ætla að taka daginn á morgun og sjá hvernig ég verð,” segir hún og ætlar að reyna að setjast á hjól og sjá hvort hún geti hjólað frekar en að ganga.
Ágústa var skráð til leiks í bæði götuhjólreiðum og tímatöku, en tímatakan hefst seinni partinn á fimmtudaginn og er Margrét Pálsdóttir skráð þar til leiks auk Ágústu.