HM í hjólreiðum – Upphitun

Heimsmeistaramótið í götuhjólreiðum fer fram eftir einungis 4 daga og mótið er einstaklega þýðingarmikið fyrir íslenska hjólreiðaáhugamenn í ljósi þess að við eigum þar 5 fulltrúa. HM er keppnin þar sem fremsta hjólreiðafólk heimsins keppir um hina eftirsóttu regnbogatreyju. Nokkur óvissa hefur verið um keppnina sem átti upphaflega að fara fram í Sviss en var aflýst vegna Covid-19 þar til síðar var ákveðið að keppnin yrði haldin í Imola á Ítalíu. Þetta hefur þau áhrif að einhver stór nöfn hafa ekki getað sett fókus á keppnina þetta árið. Sumir munu mæta beint úr Tour de France eða Giro Rosa í kvennaflokki og aðrir eru með fókus á aðrar keppnir síðar í haust og sleppa þátttöku.

Á HM í götuhjólreiðum er keppt í götuhjólum (RR) og tímatöku (TT) í kvennaflokki og karlaflokki dagana 24. september til 27. september. Almennt er einnig keppt í U23 og junior, en í ár, vegna faraldursins, var ákveðið ða keppa bara í elite flokki.

Eitt af því sem gerir UCI Worlds svo skemmtilega er að erfitt getur verið að sigra keppnina oft og halda titlinum þar sem brautirnar eru mjög breytilegar eftir staðsetningu. Eitt árið getur sprettari sigrað og annað ár klifrari eftir því hvernig brautirnar eru það árið.

Hjólafréttir fjölluðu þónokkuð um HM sem haldið var í Yorkshire í fyrra en þar kepptu Ágústa Edda Björnsdóttir (RR og TT) og Rúnar Örn Ágústsson (TT). Þetta árið verða keppendurnir fleiri alls 3 í tímatöku og 2 í götuhjólreiðum. Í tímatöku keppa þau Ágústa Edda Björnsdóttir, Margrét Pálsdóttir og Ingvar Ómarsson en í götuhjólum mun Ágústa hafa liðsfélaga með í för í þetta árið, þær Bríeti Kristý Gunnarsdóttur og Hafdísi Sigurðardóttur. Við munum taka betur stöðuna á íslensku keppendunum í seinni fréttum okkar.

Tímatakan

Dagana 24. – 25. september fara fram keppnir í tímatöku. Á fimmtudeginum er keppni í Elite kvenna og á föstudeginum keppa Elite karlar. Báðir hópar hjóla 32km leið með 200m hækkun.

TT brautin er 31,7 km með 200m hækkun

Rúnar Örn Ágústsson hefur skoðað tímatöku brautina í þaula. Hann segir að um mjög hraða braut sé að ræða. Í fyrstu líti hún ekki út að vera mjög tæknileg en þegar hún sé skoðuð nánar muni síðustu 4 km geta haft mikið að segja um úrslitin. Þar segir hann vera mikið af kröppum beygjum sem liggi beint inn í brekkur. Brautin henti hjólurum með mikið power, en sem geti keyrt hratt í beygjur og haldið þar hraða. 

Farinn er rangsælis hringur frá Imola og til baka. Í lokin er tæknilegasti kaflinn.

Líkt og fyrr segir keppa þau Ágústa Edda Björnsdóttir, Margrét Pálsdóttir og Ingvar Ómarsson í tímatökunni fyrir hönd Íslands og mæta þau sterkum keppendum. Þegar þessi grein er skrifuð liggur endanlegur startlisti ekki fyrir en þónokkur nöfn hafa þó verið tilkynnt. Í kvennaflokki munu augun beinast að núverandi heimsmeistara Chloe Dygert Owen sem sigraði með töluverðum yfirburðum í Yorkshire 2019. Hún kom þar fyrst í mark með um 90 sek forskot á hina hollensku Van Der Breggen sem var önnur. Dygert Owen hélt 43 km/klst meðalhraða í Yorkshire á 30 km langri brautinni og verður hún að teljast lang sigurstranglegust í kvennaflokki.

Í karlaflokki mun Ingvar etja kappi við hröðustu hjólara heims. Núverandi heimsmeistari Rohan Dennis er skráður til leiks ásamt töluverðum fjölda af feiknarsterkum tímatökuhjólurum. Það má þó segja að erfitt sé að benda á einn líklegasta sigurvegarann. Í fyrsta lagi eru nokkrir sem myndu teljast líklegir sem koma beint úr Tour de France og því erfitt að segja til um hvernig hvíldarvikan á milli TDF og Worlds fer með þá. Má þar nefna Tom Dumoulin (Holland) fyrrum heimsmeistara, Wout Van Aert (Belgía), Remi Cavagna (Frakkland), Kasper Asgreen (Danmörk). Af þeim sem ekki hafa verið i Túrnum eru það þrír liðsmenn Ineos sem teljast afar sigurstranglegir, fyrrnefndur Rohan Dennis (Ástralía), Thomas Geraint (Bretland) og svo Filippo Ganna (Ítalía). Þar telja Hjólafréttir að Ganna geti tekið sigurinn eftir glæsilega frammistöðu í tímatökunni í Tirreno Adriatico. Fyrir áhugamenn um Norrænar hjólreiðar verður líka gaman að fylgjast með fyrrum U23 Heimsmeistaranum Mikkel Bjerg frá Danmörku og hinum norska Andreas Leknessund.

Gríðarlega krefjandi braut í götuhjólreiðunum

Einn hringur í brautinni er 28,8km langur með tveimur klifurköflum.

Í götuhjólreiðum munu keppendur þurfa að hjóla 28,8 km hring 5 sinnum í kvennaflokki og 9 sinnum í karlaflokki. Alls eru þetta 144 km í kvennaflokki með 2750 metra hækkun og 259 km í karlaflokki með um 5000 metra hækkun. Það eru tvær brekkur í brautinni sem gera hana svo erfiða. Fyrst er það Mazzolano klifrið, 3km klifur með 6% meðalhalla. Það er þó fyrsti kílómetrinn sem mun reynast erfiður,  þar sem hallinn er að jafnaði 9,6% og nær mest 13%. Hitt klifrið er Cima Gallisterna, en þar er 1,3 km kafli sem er með 10,9% meðalhalla og nær mest um 14% halla. Brautin er í því afar punchy og í hverjum hring verða wattabombur þar til hópurinn hefur þynnst verulega. 

Í kvennaflokki eru farnir 5 hringir.

Ísland á ekki þátttakenda í götuhjólreiðum karla og því verður ekki mörgum orðum eytt í upphitun þar. Líkt og í tímatökunni er gífurlega erfitt að átta sig á því hvernig þeir keppendur sem tóku þátt í Tour de France standa fyrir svona krefjandi keppni. Komi þeir hjólarar sterkir inn gæti brautin hentað Wout Van Aert, Julian Alaphilippe, Marc Hirschi og feiknasterku slóvensku liði með Roglic og Pogacar innanborðs. Nokkrir sterkir gætu þó komið ferskari inn í keppnina, en brautin hentar m.a. Jakob Fuglsang mjög vel en hann vann Il Lombardia fyrr í haust og hann hefur ekki verið í TDF.

Ólíkt körlunum koma sterkustu konurnar ekki úr 21 dagleiða hjólakeppni. Þær sterkustu tóku þó þátt í Giro Rosa, en hún er 9 dagleiðir og endaði um helgina. Stærsta fréttin úr kvennakeppninni er að óvíst er með þátttöku sterkustu hjólreiðakonu heims og ríkjandi heimsmeistari, hinni hollensku Annemiek Van Vleuten sem datt úr Giro Rosa vegna meiðsla.

Fyrri brekkan er 2,8km og 166m hækkun. Fyrri hlutinn er 1km af 9,6% þar sem brattasti kaflinn er 13%, en seinni kaflinn nokkuð flatari.

Það yrðu ömurlegar fréttir fyrir unnendur hjólreiða en spennan verður þó meiri fyrir vikið. Hinar hollensku hafa haft yfirburði í kvennahjólreiðum á síðustu árum, og átt heimsmeistarann síðastliðin þrjú ár. Hollenska liðið verður þvi áfram sterkt þrátt fyrir að hafa misst AVV úr hópnum, þar eru enn skráðar til leiks Anna Van Der Breggen, Marianne Vos og Chantal Van Der Broek, allt fyrrum heimsmeistarar. Nokkur lið gætu veit hinum hollensku verðuga samkeppni. Pólska liðið með Katarzynu Niewiadoma sem varð önnur í Giro Rosa kæmi þar til greina en einnig danska liðið með Cecilie Uttrup Ludwig og fyrrum heimsmeistarann Amalie Dideriksen. Áhorfendur gætu einnig viljað fylgjast með ítalska og breska hópnum.

Seinni brekkan byrjar rólega en svo er 1,3km kafli með 10,9% halla, þar af 13,6% mest.
Previous Article
Next Article

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar