Bikepacking og endurance hjólreiðar – meira fyrir hjólafólk að horfa á

Það er ljóst að hjólreiðafólk hafði áhuga á síðustu samantekt okkar um hjólamyndir og –þætti. Eins og fjallahjólameistarinn Magne Kvam benti réttilega á var úrvalið nokkuð takmarkað við götuhjólreiðar. Það var þó með vilja gert og var áætlunin að henda út öðrum pakka sem væri sérsniðinn að bickpacking, touring og endurance hjólreiðum. Má finna þann lista hér að neðan.

Í fyrri pakkanum voru margar myndirnar kvikmyndir í fullri lengd, mikið til heimildar- og viðtalsmyndir. Hér er nokkuð öðru farið til, en flestar myndirnar eru í grunninn ferðasögur, jafnvel einskonar video dagbækur. Margar þeirra eru einnig að svipaðri lengd og stuttmyndir, en það ætti jafnvel að passa betur fyrir innihjólara.

Við skulum byrja með nokkuð óhefðbundnu efni. Ed Pratt ákvað að leggja af stað í hringferð um heiminn þegar hann var 19 ára gamall. Nógu extreme væri að fara í slíka ferð á hjóli, en Pratt ákvað að fara á einhjóli og varð hann fyrstur í sögunni til að klára slíkt afrek þegar hann kom aftur heim til sín í Bretlandi um 40 mánuðum síðar, eða þremur árum og fjórum mánuðum. Hann skrásetti ferðalag sitt með miklum ágætum á Youtube og hefur síðasta eitt og hálft ár klárað að setja inn efni úr ferðinni, en hann kláraði hringinn um mitt ár 2018. Ég hef haft annað augað á þessu síðustu ár og það er í raun ótrúlega forvitnilegt að fylgjast með þessu ferðalagi, fólkinu sem hann hittir, hvaða búnað hann notar og vandamálunum sem koma upp. Síðasta myndband Pratts kemur einmitt inn á morgun kl 17:00 að íslenskum tíma, en þar er samantekt af ferðalaginu gegnum Bandaríkin.

Samtals eru myndböndin um 150 talsins og fylgja hér nokkur með, en það er um að gera að fletta fleirum upp.

Lagt af stað frá Bretlandi

Fyrsta myndskeiðið af mörgum frá Kazakstan:

Eitt af mörgum frá Kína:

Löng ferðasaga frá SA-Asíu:

Suðurströnd Ástralíu farin á einhjólinu:

Að lokum hjólað í gegnum Bandaríkin

Næst ber að nefna drottningu endurance hjólreiðanna. Lael Wilcox kemur frá Alaska og auk þess að hafa sett sér það markmið að hjóla alla vegi ríkisins, þá tekur hún þátt í fjölda endurance keppna á ári hverju og venjulega með mjög góðum árangri. Árið 2015 tók hún fyrst þátt í Tour Divide, keppni þar sem keppendur fara Klettafjöllin endilöng frá Kanada til Mexíkó án allrar aðstoðar. Varð hún fyrst kvenna þetta árið og sló brautarmetið um tvo sólarhringa.

Árið eftir tók hún þátt í Trans Am Bike Race, en þar eru Bandaríkin þveruð, og endaði hún í fyrsta sæti heilt yfir. Þá sigraði hún kvennaflokk Dirty Kanza XL í fyrra (á Lauf gaffli!). Ótrúlegur íþróttamaður. Fyrsta myndskeiðið segir stuttlega frá henni, næsta segir frá 2019 Tour Divide keppninni og það síðasta frá Navad 1000 keppninni í Sviss.

Hjólandi 1800 km án aðstoðar um fjalllendi og auðnir Kyrgistan á gömlum vegum sem hefur ekki verið viðhaldið frá Sovíettímanum þar sem langar vegalengdir geta verið á milli birgðastaða. Fyrir einhverja hljómar þetta líklega eins og tóm vitleysa og kvalarþorsti. Fyrir aðra hljómar þetta eins og góð hugmynd og áskorun. Ef þú ert í síðari hópnum er þessi eitthvað fyrir þig, en hún fjallar um nýlega keppni sem tekur um tvær vikur og kallast Silk road mountain race.

Hefur Suður-Ameríka verið á draumalistanum? Tveggja kafla ferðasaga vinahóps um álfuna. Hér segja myndir/mynskeið meira meira en talað orð.

Aðeins nær okkur – Tveir félagar taka ferðalag um Lake District í Bretlandi. Frá túnum og fáförnum sveitavegum yfir í mjög grófa einstigskafla og læki sem þarf að krossa.

Höldum okkur áfram í Evrópu. Skemmtileg og vel skotin ferðasaga gegnum Þýskaland.

Áfram í Evrópu. Hér segir frá viðburði frekar en keppni þar sem hjólað er á malarvegum í gegnum Frakkland. Frá norðri til Suðurs.

Enn ein ultra endurance keppnin. Transcontinental Race er keppni þar sem farið er frá vestur hluta Evrópu til austurs (með einni undantekningu þegar farin var öfug leið). Byrjað hefur verið í Bretlandi, Belgíu eða Frakklandi og hjólað til Istanbúl í Tyrklandi, Grikklands eða aðeins austar í Tyrklandi.

Og fyrst við erum komin til Evrópu er allt í lagi að hoppa heim til Íslands. Fyrst er það fallega myndræn ferðasaga á meðan seinni ferðasagan er línulegri og með mun mannlegri vinkli. Einn á leið yfir hálendið síðsumars með tilheyrandi köldum nóttum.

Við skulum svo ekki gleyma heimsókn GCN-manna til Íslands fyrir tveimur árum.

Og meira GCN efni. Fyrra myndskeiðið er frá ferð um Atlas fjöllin í Marokkó. Stutt ferð en heillandi staður. Seinna myndskeiðið er frá ferð til Patagonia í S-Ameríku. Fallegt umhverfi, en ég bjóst einhvern veginn við aðeins meiru.

Hvenær verður einvera að einmannaleiki? Þetta er meðal þess sem Ben Page veltir fyrir sér á leið sinni norður eftir Kanada, en þetta var meðal áfangastaða á þriggja ára ferðalagi hans um heiminn þar sem hann hjólaði 55 þúsund kílómetra. Það er ekki fyrir hvern sem er að hjóla í svona aðstæðum þar sem kuldi, vindur og snjókoma gera manni lífið leitt. Mögulega gæti þó Bergur upplýst menn hvernig eigi að sigrast á þessum aðstæðum.

Úr kuldanum í hlýjuna (að mestu) í þessu einstaklega fallega myndskeiði sem er líklega það fjallahjólalegasta í þessum pakka. Eins og titillinn gefur til kynna, draumahjólaferð. Fer jafnvel aðeins út fyrir þemað, en það verður að fá að gera það.

Við lokum þessari samantekt í Ástralíu með Hunt 1000 viðburðinum. 1000 km leið um fjöll og fyrnindi milli Canberra og Melbourne. Auðnir, skóglendi, gresjur og fjalllendi með snjó. Ótrúlega fjölbreytt leið sem tekin er á 7-10 dögum.

Previous Article
Next Article

One Reply to “Bikepacking og endurance hjólreiðar – meira fyrir hjólafólk að horfa á”

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar