Rangárþing ultra og Bláa lóns þrautin að baki

Tvær fjallahjólakeppnir hafa farið fram síðustu vikur, annars vegar Bláa Lóns þrautin og hinsvegar Rangárþing Ultra. Báðar hafa farið fram við frábærar aðstæður, hlýtt og þurrt veður.

Rangárþing Ultra er fjallahjólakeppni þar sem hjóluð er 50 km leið frá Hellu til Hvolsvallar. Keppnin fór nú fram í þriðja skipti en hún hefur verið haldin frá 2017. Í kvennaflokki var það Ágústa Edda Björnsdóttir sem kom fyrst í mark en hún var 4 mín og 18 sek á undan Björk Kristjánsdóttur sem kom í önnur í mark. Í þriðja sæti var Hrefna Sigurbjörg Jóhannsdóttir. Í karlaflokki var það hinsvegar Ingvar Ómarsson sem fór með sigur af hólmi en næstur á eftir Ingvari kom Birkir Snær Ingvason og þar á eftir Eyjólfur Guðgeirsson.

Keppnin er upphaflega sprottinn af þeirri ákvörðun að hætta með Tour de Hvolsvöllur sem hafði verið götuhjólakeppni frá Reykjavík til Hvolsvallar. Var umferð á þjóðveginum orðin það mikil að ekki þótti tækt að halda keppnina eftir 2016. Var þá farið í að finna verðugan arftaka og fór fyrsta Rangarþing ultra keppnin fram árið 2017 og var þetta því í þriðja skiptið sem keppnin fer fram. Hefur hún þegar skipað sér góðan sess í hjóladagatalinu, enda voru vel á annað hundrað keppendur skráðir til leiks í ár. Er keppnin bæði góð fyrir þá sem vilja góða malar/fjallahjólakeppni, en ekki síður þá sem vilja aðeins leika sér á malarvegum frekar en að vera í einhverri harðri keppni.

BLC áfram fjölmennasta fjallahjólakeppnin

Bláa lóns þrautin fór fram laugardaginn 8. júní þegar nokkur hundruð fjallahjólarar voru ræstir frá Kaldárselsvegi í Hafnarfirði. Bláa lóns þrautin er einn stærsti viðburður á dagatali hjólreiðamanna á ári hverju og laðar að sér fjölbreyttan hóp hjólara, bæði okkar fremsta keppnisfólki í hjólreiðum sem leitar eftir að vinna eitt stærsta mót ársins og einnig stóran hóp fólks sem stefnir á að klára landvættirna ár hvert.

Leiðin í Bláa lóns þrautinni er um 60 km með 600 metra heildarhækkun þar sem bæði er hjólað á malbiki og möl. Hjólað er frá Kaldársselsvegi og beygja tekin inn á Hvaleyravatnsveg þar til komið er á Krýsuvíkurveg. Krýsuvíkurvegur er hjólaður þar til beygt er inn á Djúpavatnsleið en þá er komið inn á grófan malarveg sem síðan fer yfir á gamla Suðurstrandaveg. Að lokum hjóla keppendur inn á Suðurstrandaveg til Grindavíkur og að lokum í átt að Bláa Lóninu.

Keppendur fengu gott veður og meðvind á fyrri hluta leiðarinnar. Segja mætti að vikan hafi verið góð fyrir Ingvar á fjallahjólinu en hann kom fyrstur í mark á tímanum 1 klst : 38 mín og 28 sek og Karen Axelsdóttir á tímanum 1 klst : 53 mín og 55 sek. Í karlaflokki var Kristinn Jónsson í öðru sæti og Hafsteinn Ægir Geirsson á eftir honum í því þriðja. Var því Trek/Örninn sveitin öll á palli í þetta skiptið, en þeir unnu vel saman á leiðinni og eftir að hafa breikað komu þeir í veg fyrir að aðrir gætu náð þeim. Í kvennaflokki var það Anna Kristín Pétursdóttir sem hlaut fyrsta sætið og Hrefna Sigurbjörg Jóhannsdóttir var í öðru.

Ingvar Ómarsson sigraði einnig keppnina í fyrra og er þetta því í annað sæti sem hann kemur fyrstur í mark í Bláa lóns þrautinni en hann hefur oft komist nálægt sigri, verið þriðji árin 2012, 2013, 2016 og annar árin 2014, 2015.  Hafsteinn Ægir Geirsson hefur unnið keppnina oftast í karlaflokki, eða tíu sinnum ( 2004, 2005, 2007, 2008, 2009, 2010, 2011, 2012, 2013, 2014), auk þess að verða í öðru sæti tvisvar.

Næst á dagskránni eru það íslandsmótin í götuhjólreiðum og tímatöku en þau fara fram á næstunni og verður spennandi að sjá hverjir munu standa uppi sem sigurvegarar þetta árið.

Ljósmynd/  Marta Gunnarsdóttir

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar